Gunnhildur er nýr framkvæmdastjóri HSH
„Ég er alin upp á héraðsmótum, sundmótum, á íþróttavellinum á Lýsuhóli og vil að börnin mín geti upplifað það sama. Þess vegna sé ég heilmikil tækifæri fyrir okkur á sambandssvæðinu,“ segir Gunnhildur Gunnarsdóttir, sem nýverið var ráðin framkvæmdastjóri Héraðssamband Snæfellsness og Hnappadalssýslu (HSH). Hún mun taka við af Daða Jörgenssyni, sem mun vinna með henni fram í ágúst.
Gunnhildur er íþróttafræðingur og grunnskólakennari og uppalin í Stykkishólmi, spilaði í 15 ár í meistaraflokki kvenna í körfu undir merkjum Snæfells og Hauka og var í átta ár í landsliði kvenna í körfuknattleik. Hún er líka yfirþjálfari yngri flokka í körfu hjá Snæfelli.
Dreymir um sterkara svæði
Hún er uppfull af hugmyndum um sterkara íþróttastarf á HSH-svæðinu.
„Við erum alin upp í ungmennafélagsandanum. Pabbi og mamma voru allt í öllu og við erum það líka. Þótt börnin mín eru ekki á Unglingalandsmótsaldri þá vil ég að þau fái tækifæri til að njóta þess sama á mótum og ég,“ segir hún og bendir á að hún sjái mikil tækifæri til að styrkja starf HSH, svo sem með auknu framboði íþróttagreina, meira samstarfi og samvinnu aðildarfélaga HSH á Snæfellsnesi og auka samheldni þeirra.
„Mig dreymir um að henda af stað flottum héraðsmótum,“ segir hún.
Keppnisstjóri á Landsmóti UMFÍ 50+
Gunnhildur er langt frá því að vera verkefnalaus. Hún situr í framkvæmdanefnd Landsmóts UMFÍ 50+ sem fer fram í Stykkishólmi dagana 23. – 25. júní. Hún er þar keppnisstjóri með Magnúsi Inga Bæringssyni. Á þeirra borði er skipulag og mönnun sérgreinastjóra og að allt verði klappað og klárt í keppnisgreinum áður en blásið verður til mótsins.
„Það er allt að verða klárt og fólk orðið spennt fyrir mótinu. Við erum að vinna að því núna að manna mótið með sjálfboðaliðum enda nóg af verkefnum.“ bætir hún við.
Til viðbótar við allt annað sér Gunnhildur um þjálfun og heilsueflingu 60 ára og eldri í Stykkishólmi. Æfingar eru fjórum sinnum í viku þar sem unnið er með styrktaræfingar og lotuþjálfun. Iðkendurnir eru á mismunandi stigum, sumir voru í íþróttum á yngri árum en aðrir ekki.
Gunnhildur er með hluta hópsins á myndinni hér efst í umfjölluninni.
„Þjálfun 60+ er eitt af því skemmtilegasta sem ég geri, vonandi taka þau sem flest þátt á landsmóti 50+ í sumar“ segir Gunnhildur sem hefur þegar tekið til starfa sem framkvæmdastjóri HSH.
Meiri upplýsingar um Landsmót UMFÍ 50+