Hægt að hlaða 14 rafbíla í einu
„Fólk getur farið á tjaldstæði Unglingalandsmótsins strax í dag og byrjað að hlaða rafbílana sína. Þau þurfa aðeins viðeigandi millistykki og hala niður réttu appi. Rafbílaeigendur þekkja þetta,“ segir Gunnar Þór Gestsson, formaður Ungmennasambands Skagafjarðar (UMSS).
Gestir Unglingalandsmóts UMFÍ og aðrir geta hlaðið allt að fjórtán rafbíla í einu á tjaldsvæðinu á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina. Hæghleðslustöðvar eru fyrir átta bíla og og hraðhleðslustöðvar fyrir sex rafbíla.
Skagfirðingar setja hleðslustöðvarnar upp í samstarfi við HS Orku sérstaklega vegna Unglingalandsmótsins og munu þær verða á tjaldsvæðinu fram að sumarlokum þegar þær verða að öllum líkindum fluttar niður í bæinn.
Gunnar Þór segir hleðslustöðvarnar afar öflugar og geta þjónustað hundruð rafbíla vandræðalaust.
Rafbílaeigendur þurfa aðeins að hala niður e1-appinu sem opnar fyrir aðgang að hleðslum og tengja það við greiðslukort viðkomandi. Appið veitir líka rafbílaeigendum upplýsingar um það hvar hleðslustöðvar eru staðsettar í netinu, veitir notanda almennar upplýsingar um notkun, kostnað, fjölda kílóvattsstunda hverju sinni og fleira.