Hægt að kaupa miða á matar- og skemmtikvöld
Nú er heldur betur farið að styttast í Landsmót UMFÍ 50+ í Vogum. Það hefst á fimmtudag og er allt að verað klárt. Á föstudagskvöld var lokað fyrir skráningu í keppni í boccia og hafa keppendur fengið sendar upplýsingar um röðun í keppni. Fjöldi liða keppir í boccia. Lokað var fyrir skráningu í aðrar hópagreinar klukkan 16:00 í gær.
Enn er þó hægt að skrá sig í fjölda einstaklingsgreina og opnar greinar fyrir 18 ára og eldri. Svo er auðvitað hægt að skrá sig á matar- og skemmtikvöldið sem verður laugardaginn 8. júní. Við hvetjum fólk til að ganga frá skráningu á þetta skemmtilega kvöld í síðasta lagi í dag, þriðjudaginn 4. júní, fyrir klukkan 18:30. Hægt er að kaupa allt að fjóra miða í einu.
Í boccía verður keppt í tveimur riðlum. Annar riðillinn er leikinn seinni part á fimmtudegi og sá síðari fyrri hluta föstudags. Úrslit eru síðan um miðjan dag á föstudegi.
Dagskráin er svona:
Fimmtudagur 6. júní: Mótsstjórn opnar klukkan 14:00 – keppendur í boccia mæta í Íþróttahús klukkan 15:30. Keppni hefst klukkan 16:00 – Keppni í hjólreiðum hefst klukkan 18:30 – Keppni í kasínu hefst klukkan 20:00.
Föstudagur 7. júní: Keppnisgreinar: Boccia (16 liða keppni) – Boccia (úrslit) – Ringó – Strandarhlaup – Línudans. Mótið verður sett í íþróttahúsinu í Vogum klukkan 18:30 .
Aðrar greinar og viðburðir: Petanque – Danssmiðja – Heimatónleikar í Breiðuholti 4 með Kjartani Orra Ingvasyni klukkan 20:00. Heimatónleikar hefjast klukkan 21:00 í Vogagerði með Sigurbirni Dagbjartssyni.
Laugardagur 8. júní: Keppnisgreinar: Golf – Sund – Bridge – Borðtennis – Petanque – Pönnukökubakstur – Frisbígolf – Frjálsar íþróttir.
Aðrar greinar og viðburðir: Petanque – Pílukast – Heilsufarsmæling – Pokavarp – Frisbígolf inni – Keila – Grasblak – Söngsmiðja – Matar- og skemmtikvöld – Heimatónleikar í húsi Björgunarsveitarinnar.
Sunnudagur 9. júní: Keppnisgreinar: Pútt – Skák – Brennibolti – Stígvélakast.
Aðrar greinar og viðburðir: Göngufótbolti – Mótsslit.
Nánar um matar- og skemmtikvöldið
- Húsið opnar klukkan 18:00 og hefst formlegt dagskrá klukkan 19:00.
- Borðhald er klukkan 19:15. Á matseðli er lambalæri og tilheyrandi. Skyrkaka verður í eftirrétt.
- Veislustjóri verður Ásgeir Eiríksson, fyrrverandi bæjarstjóri Voga, sem ætlar að þenja nikkuna og segja sögur og stýra fjöldasöng.
- Baldur og Júlíus stíga á stokk með sitt prógramm um klukkan 21:30.
- Húsið verður opið meðan fjör í í því en gert er ráð fyrir að það standi til klukkan 23:30.
- Matar- og skemmtikvöldið er opið öllum og eru bæjarbúar í Vogum og mótsgestir hvattir til að fjölmenna og njóta kvöldsins.
- Opið fyrir 20 ára og eldri !