Hafdís og Erlendur bætast í raðir ÍR
Breiðhyltingarnir og ÍR-ingarnir Hafdís Hansdóttir og Erlendur Ísfeld voru á dögunum ráðin til ÍR. Hafdís er nýr framkvæmdastjóri ÍR og Erlendur er nýr íþróttastjóri félagsins.
Hafdís hefur lagt stund á félags- og kynjafræði og er með diplómu í rekstrar- og viðskiptafræði ásamt markþjálfun og var síðast framkvæmdastjóri Þjónustu hjá VÍS. Hún hefur búið næstum alla sína ævi í Breiðholti og veit hvað ÍR skipar þar stóran sess.
„Þó flest áhugamál mín tengist hreyfingu t.d. fjallgöngur, golf og gönguskíði þá hef ég ekki iðkað neina íþrótt hjá ÍR. Ég kem með sjónarhorn og reynslu úr atvinnulífinu sem ég held að gagnist inn í starfsemi ÍR og mér finnst íþróttaiðkun líka svo áhugaverð út frá því mikilvæga hlutverki sem íþróttastarf hefur í samfélaginu. Ég hlakka til að geta lagt mitt af mörkum til að efla ÍR og Breiðholtið,“ er haft eftir henni á heimasíðu ÍR.
Á myndinni hér að ofan má sjá Hafdísi með Vigfúsi Þorsteinssyni, formanni ÍR.
Erlendur sem ávallt er kallaður Elli, er uppalinn Breiðhyltingur og ÍR-ingur með blátt hjarta í gegn. Elli á konu og þrjú börn, þar af eitt sem æfir með ÍR. Elli hefur lengst af starfað í upplýsingatæknigeiranum en einnig við þjálfun og í stjórnum innan ÍR.