Hagsmunaaðilar vinni saman svo íþróttir verði fyrir alla
Dr. Ingi Þór Einarsson, lektor við HR, hefur gert rannsóknir á hreyfingu barna með fatlanir. Hann sér lítinn mun á því að þjálfa fatlaða og ófatlaða því oft er það ekki fötlunin sem hefur mest áhrif á íþróttina eða möguleika viðkomandi á að stunda hana.
„Í íþróttastarfi fatlaðra eru ýmsar áskoranir eins og í öllu öðru íþróttastarfi. Aðgengismál eru gott dæmi. Fatlaðir eiga líka fáar fyrirmyndir í íþróttum. Framboðið er svo annað mál. Íþróttafélög eiga að vera opin fyrir því að bjóða öllum börnum að taka þátt í íþróttastarfinu og þess vegna er þekking þjálfara, fræðsla og stuðningur á æfingum mjög mikilvægur þáttur. Aðstoða þarf og fræða þjálfara og aðra sem koma að skipulagningu íþróttastarfs í því að taka á móti einstaklingum með fatlanir eða sérþarfir,“ segir dr. Ingi Þór.
En hvað geta íþróttafélögin gert til að auka þátttöku barna með fatlanir eða sérþarfir í íþróttum? Þetta er flókin spurning sem engu að síður geymir mörg svör. Ingi Þór segir að þegar börn með fatlanir eru spurð af hverju þau stunda íþróttir þá svari um helmingur þeirra því að þau stundi íþróttir til að bæta sig eða ná árangri. Þegar ófötluðu börnin eru spurð sömu spurningar þá svara vel yfir 90% þeirra því að þau velji tiltekna grein til að ná árangri og verða betri. Íþróttafélögin á Íslandi eru í heild sinni mjög keppnisdrifin og ég er mjög hrifinn af því,“ segir Ingi Þór en bendir á að það fyrirkomulag höfði ekkert sérstaklega vel til einstaklinga með fatlanir eða sérþarfir.
„Ég vil auðvitað ekki að íþróttafélög breyti sér. En þau þurfa samt sem áður með virkum hætti að vera opin fyrir einstaklingum með fatlanir. Ég held að ekkert félag er á móti því að börn með fatlanir stundi íþróttir. En félögin eru ekki endilega að leita eftir þeim. Það þyrfti þess vegna að festa í lög eða reglur íþróttafélaga að íþróttir séu fyrir alla. Í það minnsta eigi þau að gefa öllum möguleika á að stunda íþróttir. Félögin eiga að leggja það á sig,“ heldur hann áfram.
Ingi Þór bendir á að fleiri fletir séu á málinu. Engin ein lausn sé til.
„Sum börn finna sig í hópíþróttum á meðan önnur finna sig í einstaklingsíþróttum. Sum börn byrja til dæmis í einstaklingsíþrótt og finnst ekki gaman í henni til að byrja með en fílað sig svo mjög mikið á meðan önnur börn eru miklar félagsverur og blómstra frekar í hópíþróttum. Ef íþróttafélögin segjast vera opin fyrir því að allir megi prófa sig og máta þá er samt ekki víst að það gangi allt saman alltaf fyrir alla”.
Gaman að æfa með öðrum
Ingi segir það skelfilega tilhugsun ef einhverjum dettur í hug að leggja niður íþróttafélög sem leggi áherslu á íþróttir iðkenda með fatlanir. Við það tapist samkenndin og jafningjaáhorfið, þ.e. börn með tiltekna fötlun geti ekki lengur æft með jafningjum.
„Það er frábært að sjá krakka í félögum úti á landi í hjólastól að æfa handbolta með iðkendum með fatlanir. En það væri áreiðanlega svakalega gaman að æfa með öðrum krökkum í hjólastól. Það sem öðru fremur skiptir máli er að börnin upplifi sig velkomin í íþróttastarfinu. Íþróttafélög þurfa því að finna lausnir við því hvað er hægt að gera. Lausnin er ekki alltaf fullkomin og ekki víst að hún gangi alltaf upp en það þarf að vera gott samtal milli íþróttafélaga sem eru með sérstakt starf með fötluðum þannig að önnur félög viti af þeim og geti unnið með þeim. Ég held að það sé ekkert félag sem neiti börnum með fötlun um aðgang. En þau gera kannski samt ekkert til að höfða til þessa hóps. Fleiri félög þurfa að bjóða alla velkomna og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að finna lausnir sem virka fyrir hvern og einn,þó svo að lausnin sé ekki alltaf fullkomin,“ segir Ingi Þór.
Minna val í dreifðari byggðum
Margt er til fyrirmyndar í íþróttastarfi fatlaðra. Ingi Þór nefnir sérstaklega Íþróttafélag fatlaðra í Reykjavík (ÍFR), Öspina og Fjörð í Hafnarfirði auk Gerplu sem er með sérstakan hóp í fimleikum fyrir iðkendur með sérþarfir, sundfélagið Óðinn á Akureyri er með hóp iðkenda með fötlun, Haukar í Hafnarfirði bjóða upp á körfubolta fyrir iðkendur með sérþarfir. Auk þess er fjöldi smærri íþróttafélaga út um allt land sem leggur höfuðáherslu á íþróttastarf fyrir einstaklinga með fatlanir.
Ingi Þór segir lítinn mun á íþróttafélögum í þéttbýli og í dreifðari byggðum hvað eðli íþróttastarfs varðar.
„Í þéttbýli eru oft hópar, félög eða lið fyrir fatlaða eins og Ösp, ÍFR og Nes þar sem einstaklingurinn hefur aðeins meira val. Eins og í Reykjanesbæ hefur fatlaður einstaklingur val um að æfa fótbolta með Nes eða skrá sig í Njarðvík. Á dreifðari stöðum á landsbyggðinni held ég að einstaklingar hafi sjaldnar það val.“
Stuðningur í íþróttastarfi
Eitt af því sem mikið er rætt um í dag er hvernig hægt sé veita börnum með fatlanir eða sérþarfi sérstakan stuðning með svipuðum hætti og gert er í skólakerfinu.
Ingi Þór segir þetta vissulega góða umræðu sem þurfi að halda áfram að taka. Sum börn með fatlanir komi vissulega með sérstakar áskoranir til þjálfarans sem verði að vinna með.
„Það er alls ekki sanngjarnt fyrir neinn að eitt barn fái helminginn af tíma og orku þjálfara á meðan hin sextán börnin þurfa að skipta með sér hinum helmingnum“, segir hann og bætir við að hér þurfi að hugsa í lausnum. Margt sé nefnilega hægt að gera til að draga úr því að einn iðkandi taka meirihluta tímans frá heildinni og því verði að velta fyrir sér möguleikanum á stuðningi við fatlaðan iðkanda eða með aðrar sérþarfir.
„Oft eiga fjölskyldur fatlaðra barna rétt á stuðningi og sumar fjölskyldur hafa nýtt sér þann stuðning til að vera stuðningur við íþróttavettvanginn. En það er auðvitað ekki alltaf góð lausn því fjölskyldan gæti þurft að nota stuðninginn sinn á öðrum stöðum,“ segir Ingi Þór og bendir á að lausnirnar geti leynst víða. Þær séu nefnilega til en mikilvægt sé að draga þær fram í dagsljósið.
„Þegar ég var hjá félaginu Nes í Keflavík var kenndur áfangi í lífsleikni við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Í áfanganum fóru krakkarnir út á vettvang og unnu sjálfboðavinnu. Við sömdum um það að krakkarnir fengu að koma og aðstoða á æfingum hjá Nesi. Fyrirkomulagið var beggja hagur. Krakkarnir í FS fengu einingar fyrir sjálfboðavinnuna og krakkarnir í Nesi fengu aðstoð á æfingum. Krakkarnir úr FS stóðu sig frábærlega og það var mikil hjálp að fá að fá þau á æfinar. Kosturinn var að þetta kostaði ekki neitt - ekki nema það að hugsa í lausnum,“ heldur Ingi Þór áfram en bendir samt á að vissulega hafi þetta verið auðveldara í tilviki Ness og Fjölbrautaskóla Suðurnesja þar sem íþróttafélagið sé í næsta nágrenni við skólann. Því er ekki að skipta í öllum tilvikum og auðveldaði nálægðin samstarfið til muna.
Mikilvægt að skoða nýjar nálganir
Mikilvægt er að opna fyrir ýmsa möguleika og skoða margar nálganir til að ná svipaðri niðurstöðu og nefnd var hér að ofan, þ.e. sem getur leitt til þess að létta undir með þjálfurum á íþróttaæfingum svo íþróttir verði sannlega fyrir alla.
„Það má líka velta því fyrir sér hvort útfæra megi þessar pælingar með þeim hætti að þeir sem eru á atvinnulausir og í atvinnuleit hafi áhuga á þessu. Við erum með mannskap þarna úti sem er til í að aðstoða þetta íþróttastarf. En mikilvægt er að tengja fólk saman. Það er til fullt af svona lausnum, það þarf bara samtalið til að finna út úr þeim. Það eru örugglega einhver flækjustig í þessu. En úr þeim er hægt að greiða til að finna leiðirnar,“ segir Ingi Þór.
Sú tíð er löngu liðin að fólk sé opinberlega neikvætt í garð íþrótta iðkunar einstaklinga með fatlanir. Ingi Þór telur um 20 ár síðan hafi síðast orðið þess áskynja.
„Staðan hefur vissulega breyst og farið heilmikið fram. Umræðan er miklu jákvæðari núna um íþróttir einstaklinga með fatlanir heldur en hún var áður fyrr. Auðvitað þurfa ekki allir að vera styðja af krafti íþróttir fatlaðra, en maður heyrir sjaldan talað um þær á neikvæðan hátt. Það er alltaf einhver á bremsunni og fólk má alveg hafa sínar skoðanir. Mér finnst íþróttafélögin gera þetta vel og mjög samkeppnishæft við annað sem ég hef séð erlendis. Helsti þröskuldurinn sem ég sé er að íþróttafélögin mættu vera opnari fyrir því að hvetja einstaklinga með fatlanir til að koma til sín og prufa íþróttir hjá þeim, og láta vita að þau eru opin fyrir því að finna lausnir fyrir alla. Lausnin þarf ekki að vera fullkomin.“
Lausnin felst í samtalinu
Ingi Þór segir draumaútfærsluna þá að íþróttafélög og aðrir hagsmunaaðilar fari að ræða meira saman en áður, svo sem um þarfir, drauma og væntingar.
„Við þurfum að fá að vita hvað það er nákvæmlega sem börn með fatlanir og foreldrar þeirra vilja sjá frá íþróttafélaginu sínu. Draumastaðan er sú að á hverjum einasta stað verði hægt að finna lausn á staðbundnum vandamálum. Við þurfum að skoða hvaða byggingar við höfum, greina aðstöðuna, velta því fyrir okkur hvað þjálfararnir geta og þess háttar. Lausnirnar eru þarna en við erum oft lítið að tala saman. Ég held að lausnin kosti minna og sé nær okkur en margir halda. Ef við bara ákveðum að setjast niður, allir þessu beinu og sjálfsögðu hagsmunaaðilar; fulltrúar íþróttahreyfingarinnar, sveitarfélaga, ríkis íþróttafólkið og foreldrar þeirra, þá held ég að það sé hægt að finna lausnir á ansi mörgum af þessum vandamálum sem núna standaí vegi fyrir íþróttaþátttöku barna með fatlanir. Að sjálfsögðu er hægt að segja að það þurfi meiri pening og stuðning við verkefnið. En það er ekki stóra mengið. Við getum fundið lausn á því á sjálfbærari og betri hátt svo íþróttir verði fyrir alla,“ segir Ingi Þór að lokum.
Viðtalið við Inga Þór Einarsson er í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ.
Hægt er að lesa blaðið allt og ítarlega umfjöllun um börn og aðra iðkendur með fötlun í íþróttastarfi í blaðinu á umfi.is
Þar á meðal er viðtal við hjónin Ófeig Ágúst Leifsson og Þórdísi Bjarnadóttur hjá Íþróttafélaginu Suðra og ræða þau um stuðning HSK og sveitarfélagsins Árborgar við íþróttir iðkenda með fötlun í Árborg, vinnu Norðmanna hjá íþróttahéraðinu Viken og margt fleira.