Fara á efnissvæði
16. október 2017

Haukur endurkjörinn formaður UMFÍ

Haukur Valtýsson var endurkjörinn formaður UMFÍ á sambandsþingi UMFÍ um helgina. Hann hefur verið formaður UMFÍ frá sambandsþingi UMFÍ sem fram fór í Vík í Mýrdal árið 2015. Stjórn UMFÍ situr tvö ár í senn og er hún kosin á sambandsþingum. 

Sjálfkjörið var í stjórn UMFÍ og gaf Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, kost á sér áfram til næstu tveggja ára. Þrír hættu í stjórn og varastjórn og gáfu þrír aðrir kost á sér til setu.

Jóhann Steinar Ingimundarson, fyrrverandi formaður Stjörnunnar, kemur inn í aðalstjórn frá Ungmennasambandi Kjalarnesþings (UMSK) og í varasstjórn koma þeir þeir Gunnar Þór Gestsson frá UMSS og Lárus B. Lárusson frá UMSK.

Inn í aðalstjórn kemur auk þess Guðmundur Sigurbergsson, frá UMSK. Hann var áður í varastjórn UMFÍ. Fyrir voru varaformaðurinn Örn Guðnason frá HSK, Gunnar Gunnarsson frá UÍA, Hrönn Jónsdóttir frá UMSB og Ragnheiður Högnadóttir frá USVS.

Í varastjórn voru sjálfkjörin Helga Jóhannesdóttir frá UMSK sem var áður í aðalstjórn, og Sigurður Óskar Jónsson frá USÚ.

Úr stjórn hættu Björn Grétar Baldursson meðstjórnandi og þeir Kristinn Óskar Grétuson og Þorgeir Örn Tryggvason sem voru í varastjórn.

Stjórn UMFÍ er því eftirfarandi: Haukur Valtýsson, formaður; Örn Guðnason, Guðmundur Sigurbergsson, Gunnar Gunnarsson, Hrönn Jónsdóttir, Jóhann Steinar Ingimundarson og Ragnheiður Högnadóttir. Í varastjórn eru Gunnar Þór Gestsson, Lárus B. Lárusson, Helga Jóhannesdóttir og Sigurður Óskar Jónsson.

 

UMFÍ stuðli að auknum lífsgæðum

Jóhann segist mjög ánægður með að hafa fengið tækifæri til að setjast í aðalstjórn UMFÍ:

 „Ég hef í gegnum tíðina haft brennandi áhuga á framgangi íþrótta- og æskulýðsmála. Þar liggur til grundvallar sannfæring mín þess efnis að ef rétt er haldið á þeim málaflokki þá geti það stuðlað að auknum lífsgæðum, einkum barna og unglinga. Ég bauð mig fram til að vinna að framtíðarsýn og stefnumörkun UMFÍ sem byggir á grunngildum félagsins um ræktun lýðs og lands. Á þeirri vegferð vonast ég jafnframt til að kynnast því öfluga fólki sem kemur að starfinu víðsvegar um landið og heyra sem flest sjónarmið til að takast á við þau fjölmörgu mikilvægu verkefni sem hreyfingin stendur frammi fyrir félagsmönnum til heilla.“