Fara á efnissvæði
14. mars 2024

Heiðra Heiðar og langstökksþríeykið

Heiðar Ingi Jóhannsson var sæmdur Gullmerki UMFÍ á Héraðssþingi Héraðssambandsins Hrafna-Flóka sem fram fór um síðustu helgi. Á sama tíma fékk langstökksþríeykið svokallaða starfsmerki. Þríeykið mynda þær Ásdís Guðjónsdóttir, Guðrún Helga og Valgerður Jónasdóttir, sem aldrei láta sig vanta á mót á vegum sambandsins. 

Þing Héraðssambandsins Hrafna-Flóka (HHF) fór fram á veitingastaðnum Vegamótum á Bíldudal. Það fór vel fram, sama stjórn sat áfram og sköpuðust góðar umræður um ýmis mál. Þar á meðal vakti Birna Hannesdóttir, formaður HHF, athygli á því í skýrslu stjórnar, að mikilvægt væri að skoða aðstöðumál til íþróttaiðkunar á svæðinu og gera úttekt til þess að hægt sé að móta stefnu til framtíðar með sveitarfélögunum með úrbótum. 

Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, var fulltrúi UMFÍ á þinginu ásamt Andra Stefánsson frá ÍSÍ. Jóhann Steinar flutti þar ávarp og kveðju fyrir hönd UMFÍ ásamt því að afhenda heiðranir. 

Andri sæmdi Margréti Brynjólfsdóttur, fyrrverandi formann HHF með Gullmerki ÍSÍ, og Björg Sæmundsdóttur með Silfurmerki ÍSÍ. 

 

Nánar um handhafa Gullmerki UMFÍ

Heiðar Ingi Jóhannsson hefur unnið ötult starf á vegum íþróttahreyfingarinnar á sunnanverðum Vestfjörðum og er einn af þeim sem endurreistu HHF árið 1980. Hann hefur setið í varastjórn og aðalstjórn HHF frá þeim tíma. Hann hefur einnig setið í stjórn Ungmennafélags Tálknafjarðar (UMFT) og Golfklúbbi Bíldudals (GBB) og hann hefur þar tekið sæti formanns í báðum félögum. Hann situr enn í varastjórn HHF og er formaður GBB. Heiðar Ingi fékk starfsmerki UMFÍ árið 1997 og hafði hann þá starfað í þágu íþrótta í 17 ár. Nú eru árin orðin  44 og er hann enn að.

Langstökksþríeyið


Ásdís, Gunna Helga og Vala eru hluti af því sem í Vesturbyggð er kallað langstökks þríeykið eftir að hafa unnið á öllum frjálsíþróttamótum í langstökki til margra ára. Þær hafa staðið vaktina og verið ómetanlegur stuðningur við frjálsíþróttastarf Hrafna-Flóka. Keppendur Hrafna-Flóka tengja góðar minningar gagnvart þeim en röggsemi, hvatning og örugg framkvæmd langstökks er ávallt í höndum þeirra þriggja.

 

Á myndunum hér með má sjá Jóhann Steinar afhenda heiðranir og myndir frá þinginu.

Meira um héraðsþing HHF