Heilbrigðisráðherra boðar til lýðheilsuþings
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur boðað til heilbrigðisþings 10. nóvember næstkomandi. Þingið verður helgað lýðheilsu.
Þingið verður á Hilton Reykjavik Nordica og verður öllum opið. Það mun standa frá klukkan 8:30 – 16:30 og er aðgangur ókeypis.
UMFÍ hvetur fulltrúa íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarinnar til þátttöku á þinginu.
Fram kemur í boðsbréfi heilbrigðisráðherra á vefsíðu Stjórnarráðsins, að þingið hafi verið haldið síðastliðin fjögur ár og sé það tileinkað mikilvægum málefnum sem varða heilbrigðiskerfið og skipulag heilbrigðisþjónustu.
Þetta árið hafi ráðherra ákveðið að helga þingið lýðheilsu. Þar verði einstaklingurinn í forgrunni með áherslu á allt það sem hægt sé að gera til að efla, vernda og viðhalda góðri heilsu. Jafnframt verði fjallað um það hvernig stjórnvöld og stofnanir samfélagsins geti með ákvörðunum sínum og aðgerðum skapað almenningi sem bestar aðstæður til heilsueflingar á öllum æviskeiðum.
Í boðsbréfi ráðherra er jafnframt rifjað upp að Alþingi samþykkti á síðasta ári lýðheilsustefnu til ársins 2030. Markmið stefnunnar er að lýðheilsustarf með áherslu á heilsueflingu og forvarnir verði hluti af allri heilbrigðisþjónustu. Stjórnvöld skuli stuðla að því að landsmenn verði meðvitaðir um ábyrgð á eigin heilsu, s.s. með fræðslu og vitundarvakningu um gildi forvarna og heilsueflingar, s.s. á sviði næringar, hreyfingar og geðræktar. Liður í því er að tryggða fólki aðgang að hagnýtum og gagnreyndum upplýsingum um það efni sem auðveldar hverjum og einum að stunda heilbrigðan lífsstíl, viðhalda heilsu sinni eða bæta hana.
Íþróttahreyfingin með fulltrúa í verkefnahópi
Að lokum er tekið fram í bréfi ráðherra, þar sem öllum sem vilja er boðið á lýðheilsuþingið, að verkefnahópur vinni að mótun aðgerðaráætlunar um framkvæmd lýðheilsustefnu. Gert sé ráð fyrir því að nýta afrakstur lýðheilsuþingsins inn í þá vinnu.
Heilbrigðisráðherra skipaði verkefnahópinn 30. júní 2022. Í honum situr m.a. Valdimar Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Ungmennasambands Kjalarnesþings og var hann tilnefndur af UMFÍ. Viðar Garðarsson situr í verkefnahópnum að tilnefningu ÍSÍ. Önnur í hópnum eru Örvar Ólafsson, sem tilnefndur er að mennta- og barnamálaráðuneyti og Margrét Lilja Guðmundsdóttir, sérfræðingur Rannsóknar og greininga (R&g) ásamt fleirum.
Nánari upplýsingar eru á heilbrigdisthing.is og þar fer einnig fram skráning þátttöku
Ítarlegri upplýsingar á Facebooksíðu lýðheilsuþingsins
Aðgangur er ókeypis.