Helga Björg tekur við stýrinu hjá ÍBA
Helga Björg Ingvadóttir hefur verið ráðin tímabundið sem framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Akureyrar (ÍBA). Helga kemur til starfa á næstu dögum í hlutastarf en fer í fullt starf 1. febrúar 2023. Ráðning Helgu Bjargar er tímabundin til 31. október á næsta ári vegna veikindaleyfis Helga Rúnars Bragasonar, framkvæmdastjóra bandalagsins, að því er fram kemur á www.iba.is.
Fram kemur á heimasíðu ÍBA að Helga Björg er með BSc gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og mastersgráðu í forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst. Hún hefur einnig lokið prófi í verðbréfaviðskiptum frá Háskólanum í Reykjavík.
Helga Björg hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og starfaði lengst af sem sjóðsstjóri hjá verðbréfafyrirtækjum bæði í Reykjavík og á Akureyri og hefur því hlotið víðtæka reynslu af fjármálamörkuðum bæði hér heima og erlendis. Nú síðast starfaði hún sem sérfræðingur hjá Gallup.
Helga Björg hefur verið virk í íþróttastarfinu á Akureyri. Hún spilaði lengi handbolta með KA og síðar KA/Þór. Hún hefur líka tekið virkan þátt í íþrótta- og félagsstörfum í kringum íþróttaiðkun barna sinna hjá íþróttafélögum á Akureyri. Hún situr m.a. í stjórn yngriflokkaráðs KA.
ÍBA hefur verið sambandsaðili UMFÍ síðan á sambandsþingi 2019. Á sama tíma bættust við Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) og Íþróttabandalag Akraness (ÍA). Sambandsaðilar UMFÍ eru 26 talsins sem skiptast í 21 íþróttahérað og 5 ungmennafélög með beina aðild. Alls eru um 450 félög innan UMFÍ, þar á meðal nærri því öll íþróttafélög landsins, hestafélög, akstursíþróttafélög, dansfélög og mörg fleiri.