Fara á efnissvæði
08. mars 2021

Helga Guðrún fyrst kvenna formaður UMFÍ

„Mér fannst þetta skemmtileg áskorun að bjóða mig fram sem formaður UMFÍ. Ég var ekkert að velta kynhlutverkunum fyrir mér, en vissi að ég var í brauðryðjandahlutverki þar sem mér var bent á að ég væri fyrsta konan til að bjóða mig fram í þetta mikilvæga hlutverk,“ segir Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ árin 2007 til 2015. Helga Guðrún er fyrsta konan í formannsstóli UMFÍ.

Í dag er Alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Hann var haldinn í fyrsta sinn í Bandaríkjunum árið 1909, en þá voru tvö ár liðin frá stofnun UMFÍ.

Þegar Helga ákvað árið 2007 að bjóða sig fram sem formaður UMFÍ hafði hún verið lengi í stjórn UMFÍ. Hún kom fyrst inn í stjórnina árið 1997 og sat í varastjórn fyrsta tímabilið. Hún var meðstjórnandi frá árinu 1999 til 2001 og varaformaður UMFÍ árin 2001-2007. Hún sat svo í formannsstóli UMFÍ í átta ár. Hún var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2016 fyrir störf sín á vettvangi íþrótta- og æskulýðsstarfs og sæmdi heiðurskrossi ungmennafélagshreyfingarinnar á sambandsþingi UMFÍ í október 2019.

 

 

Helga viðurkennir að þegar hún tekur ákvörðun um að bjóða sig fram í formannskjöri UMFÍ 2007 var henni sagt að hún væri fyrsta konan til að gera slíkt. Það var ekki aðalmálið fyrir henni heldur hafði hún áhuga á að takast á við hlutverkið fengi hún til þess umboð. Eins taldi hún sig búa að töluverðri reynslu sem myndi nýtast vel í stjórn UMFÍ.

 

Fyrirmynd annarra

„Íþróttahreyfingin hefur verið mjög karllæg og er það að mörgu leyti enn þó að það sé mín tilfinning að  konum fari fjölgandi í stjórnum og í forystu félaga innan hreyfingarinnar. Ég fékk líka alveg að heyra það, að ég væri flott og góð en líka að ég væri skass og frek” segir hún.

Viðurkenningin kom þó fyrr en síðar.

„Mér hefur  þótt afar vænt um það þegar yngri konur hafa komið til mín á sambandsþingum UMFÍ og  eins í heimsóknum mínum til héraðssambanda og nefnt það við mig að  ég væri fyrirmynd þeirra og hvatning til þess að þær sjálfar hafi gefið kost á sér í ábyrgðastöður. Ég var mjög hrærð og þótti vænt um þau orð,“ segir hún.

Helga Guðrún er verkefnastjóri  við Hamraskóla í Grafarvogi. Þar eins og innan ungmennafélagshreyfingarinnar hefur hún haldið áfram að hvetja stúlkur til að hafa trú á sér og hafa áhrif.

„Það á ekki að skipta neinu máli hvort við erum konur eða karlar. Við eigum bara öll að vera með á okkar forsendum,“ segir Helga Guðrún.

Þess má reyndar geta að Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, er jafnframt fyrsta konan til að gegna því starfi.