Hittast á ný í gamlingjadútli
„Við byrjuðum að keppa hvor á móti öðrum á unglingsaldri, ég var sennilega fimmtán ára. Síðan þá eru liðin 66 ár og við erum enn að keppa, nú í gamlingjadútli,“ segir Þorbergur Þórðarson, þátttakandi á Landsmóti UMFÍ 50+. Hann keppti með öðrum Borgfirðingum í boccía á föstudag. Einn mótherja hans var heimamaðurinn Sigurþór Hjörleifsson.
Þorbergur er 85 ára en Sigurþór áttræður, fæddur árið 1943.
Á árum áður keppti Þorbergur undir merkjum Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB) á frjálsíþróttamótum og hitti þar Sigurþór, sem keppti undir merkjum Héraðssambands Snæfellsness- og Hnappadalssýslu (HSH).
Skipst var á að keppa í Borgarnesi og Stykkishólmi um margra ára skeið og hittumst þeir félagar því oft.
Nú 66 árum síðar keppa þeir enn undir sömu merkjum og finnst það ógurlega gaman enda hlæja þeir mikið þá stuttu stund sem samtalið stendur.
Þeir félagar taka líka yfirleitt þátt í mörgum fleiri greinum.
„Við erum enn að!“ segir Sigurþór en Þorbergur bætir við að Sigurþór hafi áður fyrr verið í kúluvarpi. Nú sé hann bara með mikið léttari kúlur.