Hjörleifur og Laufey Helga taka við hjá HSH
Hjörleifur K. Hjörleifsson, formaður aðalstjórnar Ungmennafélagsins Snæfells í Stykkishólmi, tók fyrir um hálfum mánuði við sem formaður Héraðssambands Snæfellsnes og Hnappadalssýslu (HSH). Héraðssambandið hafði verið formannslaust síðastliðin þrjú ár. Um svipað leyti tók Laufey Helga Árnadóttir við af Garðari Svanssyni sem framkvæmdastjóri HSH.
Hjörleifur segir stjórn HSH telja það mikilvægt að hafa formann yfir héraðssambandinu og hafi hann því verið skipaður í stöðuna. Hann gerir ekki ráð fyrir að sitja lengi, jafnvel ekki nema fram að sambandsþingi sem boðað hefur verið 11. desember.
Hjörleifur, sem sjálfur hefur unnið mikið að félagsmálum á svæði HSH, erfitt sé að fá fólk í félagsstörf og lítið um endurnýjun í helstu deildum. Sjálfur hafi hann verið formaður Snæfells frá árinu 1999 og var um nokkurra ára skeið líka í stjórn HSH sem gjaldkeri og meðstjórnandi.
Hjörleifur telur þetta fjarri því einsdæmi, erfitt sé að fá fólk til að vinna að félagsmálum í sjálfboðavinnu víða um land og því lendi vinnan yfirleitt á herðum sama fólksins.
„Við í stjórninni og Laufey Helga ætlum að gera skurk í þessu og fá fleiri til starfa,“ segir hann.