Hrafnkell endurkjörinn formaður ÍBH
Þing Íþróttabandalags Hafnarfjarðar (ÍBH) var haldið fimmtudaginn 11. maí síðastliðinni í safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju. Á þingið mættu 68 fulltrúar aðildarfélaga bandalagsins auk gesta. Þar á meðal var Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, sem mætti á þingið í fyrsta sinn og hélt hann þar ávarp. ÍBH varð sambandsaðili UMFÍ undir lok síðasta árs. Þetta voru heilmikil tímamót enda urðu þá öll íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu innan UMFÍ.
Hrafnkell Marinósson, formaður ÍBH, setti þingið. Hann er hér á myndinni fyrir miðið að ofan.
Að setningu lokinni komu ávörp gesta. Valdimar Víðisson, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar, flutti eitt, Jóhann Steinar líka, Hörður Þorsteinsson, stjórnarmaður í framkvæmdastjórn ÍSÍ, og Valgerður Sigurðardóttir, formaður félags eldri borgara í Hafnarfirði voru jafnframt með erindi.
Þingforsetar voru Steinn Jóhannsson og Valdimar Svavarsson.
Af ýmsum málum fyrir þinginu lagði íþróttanefnd fyrir tillögu um aukin framboð til heilsueflingar fyrir eldri íbúa og tillögu um verklagsreglur vegna starfa stjórnar- og starfsmanna í íþróttafélögum.
Hrafnkell, sem verið hefur formaður ÍBH frá árinu 2009 var endurkjörinn.
Ítarlegri upplýsingar um stjórnarkjör ÍBH má lesa á Facebook-síðu ÍBH.