Hvernig eiga samskipti að vera í íþrótta- og æskulýðsstarfi?
Allar manneskjur eru félagsverur og í öllum samfélögum reynir á samskipti fólks. Fólk hefur samskipti eftir ýmsum leiðum og til þess að samskipti séu ánægjuleg og ásættanleg fylgja einstaklingar ákveðnum óskrifuðum samskiptareglum sem settar eru í hverju samfélagi. Gæði samskiptanna fara svo oftar en ekki eftir því hversu meðtækilegir einstaklingar samfélagsins eru fyrir þessum reglum.
Grunnurinn liggur í góðum samskiptum
Góð mannleg samskipti eru yfirleitt talin einkennast af gagnkvæmri virðingu, trausti, skilningi, góðri hlustun, einlægni, þolinmæði, samkennd og sveigjanleika og flestir viðurkenna slíkar samskiptareglur og fara eftir þeim, sjálfum sér og öðrum til hagsbóta og virðingar.
Það skiptir máli að vanda til verksins. Fólk ætti ávallt að hafa í huga hvernig framkoma þess hefur áhrif á annað fólk í kringum það. Flest gerum við það í beinum samskiptum okkar við aðrar manneskjur, t.d. á vinnustaðnum, í skólanum eða á heimilinu, og við leggjum áherslu á að kenna börnum og ungmennum færni í mannlegum samskiptum. Flest komum við vel fram við annað fólk þegar við erum nálægt því og við kennum börnunum okkar og ungmennum að gera slíkt hið sama.
Siðferði fólks skiptir máli Til að samskipti séu farsæl og gefi af sér það sem tilteknir aðilar, sem eiga samskipti, vænta af þeim er mikilvægt að fara eftir þeim atriðum sem talin eru einkenna góð samskipti. Til viðbótar við það skiptir siðferði miklu máli. Án góðs siðferðis er erfitt að bera tilhlýðilega umhyggju og virðingu fyrir manneskju sem maður á samskipti við en í flestum ef ekki öllum mannlegum samskiptum reynir á siðferði. Siðferðisvitund á mikinn þátt í að skera úr um og móta það hvernig fólk á samskipti sín í milli og hvort hegðun þess sé rétt eða röng eða góð eða slæm.
Hafðu velferð barna og ungmenna í fyrirrúmi
Í íþrótta- og æskulýðsstarfi reynir á samskipti fólks við ýmsar aðstæður. Sum samskipti eru á jafningjagrundvelli en önnur eru á milli ábyrgðaraðila og þátttakenda í starfinu. Í slíkum samskiptum skiptir miklu máli að vanda ávallt til verka og fylgja góðu siðferði. Ávallt skal stuðla að velferð barna og ungmenna og hafa að leiðarljósi það sem þeim er fyrir bestu í öllum samskiptum.
Allt frá árinu 2012 hafa verið í gildi innan Æskulýðsvettvangsins siðareglur sem starfsfólk og sjálfboðaliðar eiga að fara eftir í starfinu og utan þess. Þær snúa meðal annars að samskiptum, en markmiðið með þeim er að byggja upp góð samskipti og góða menningu innan þeirra félagasamtaka sem saman mynda Æskulýðsvettvanginn og stuðla þannig að heilbrigðu, uppbyggjandi og vönduðu starfi með börnum.
Ábyrgðaraðilar skulu gæta vandvirkni og samviskusemi auk þess að koma fram af umhyggju, heiðarleika og virðingu gagnvart öllum þeim sem starfað er með eða fyrir. Hafa skal í huga að orð og athafnir samrýmist starfi, umhverfi, stað og stund en ábyrgðaraðilar innan hreyfinganna, starfsfólk og sjálfboðaliðar eru fyrirmyndir þátttakenda í starfi og þeim ber að sýna góða hegðun og gott fordæmi jafnt í starfi sem utan þess. og ungmennum.
Greinin birtist í síðasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Þetta er 4. tbl. ársins 2018. Blaðið allt er hægt að nálgast hér:
Hér á eftir fara nokkrar mikilvægar siðareglur sem nauðsynlegt er að allir ábyrgðaraðilar fari eftir í starfinu.