Fara á efnissvæði
12. mars 2021

Hvetja aðildarfélög til að virða útgefin aldurstakmörk í rafíþróttum

Síðustu misseri hafa nokkur íþrótta- og ungmennafélög innan ÍSÍ og UMFÍ boðið félagsmönnum sínum upp á iðkun rafíþrótta/rafleikja innan starfsemi viðkomandi félaga. Þessi verkefni eru tiltölulega ný af nálinni innan samtakanna en á síðustu þingum þeirra beggja var lagt til að stofna vinnuhópa, sem þegar hefur verið gert, til þess að ná að ramma inn tilgang og markmið slíkrar starfsemi í samræmi við starf og gildi þeirra.

Nýlega skipaði mennta- og menningarmálaráðherra starfshóp sem hefur það hlutverk að móta stefnu með það að markmiði að efla umgjörð í kringum rafíþróttir/rafleiki og eiga ÍSÍ og UMFÍ fulltrúa í þeim hópi.

Samtökin binda vonir til þess að sú vinna sem er í gangi muni varpa skýrara ljósi á málaflokkinn og í kjölfarið verði unnt að leggja tillögur fyrir þing beggja samtakanna og taka upplýsta ákvörðun um aðkomu aðildarfélaganna að rafíþróttum/rafleikjum til framtíðar.

ÍSÍ og UMFÍ hvetja aðildarfélög sín að virða útgefin aldurstakmörk þeirra leikja sem spilaðir eru á vettvangi þeirra auk þess að tryggja að inntak leikjanna sé í samræmi við siðareglur og gildi viðkomandi félags og þeirra samtaka sem þau tilheyra.

Virðingarfyllst,

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands

Ungmennafélag Íslands