Hvetja íbúa til að eignast fleiri börn
Hjónin Freydís Anna Arngrímsdóttir og Hörður Þór Benónýsson voru sæmd Gullmerki HSÞ á þingi Héraðssambands Þingeyinga á dögunum. Öll stjórnin var endurkjörin á þinginu.
Þingið var vel sótt af fulltrúum þeirra félaga sem tóku þátt en af 17 félögum sem sendu fulltrúa voru 15 félög með fulla mönnun, að því er segir á heimasíðu HSÞ. Alls höfðu 24 félög rétt á að senda þingfulltrúa.
Fyrir þinginu lágu sjö þingskjöl og var sýnt að eitt þeirra vakti mesta umræðu þingfulltrúa en það var djörf tillaga að breytingu á lottóskiptingu sambandsins en henni var vísað frá.
Gunnar Gunnarsson var fulltrúi UMFÍ á þinginu og Viðar Sigurjónsson frá ÍSÍ.
Á þinginu fækkaði aðildarfélögum um þrjú en samþykkt var að skrá Umf. Geisla, Umf. Leif heppna og Skotfélag Þórshafnar og nágrennis úr héraðssambandinu þar sem félögin höfðu ekki staðið skil til íþróttahreyfingarinnar eins og lög HSÞ gera ráð fyrir. Þau bættust við sex önnur félög sem hafa verið tekin úr sambandinu á síðastliðnum tveimur árum.
Nokkrar tillögur voru samþykktar sem starfsnefndir þingsins lögðu fram, sú skemmtilegasta líklega hvatning til íbúa innan svæðis héraðssambandsins til þess að eignast fleiri börn.
Kjöri íþróttamanns ársins var lýst á þinginu eins og hefð er fyrir. Íþróttamaður HSÞ var kjörin blakkonan Sigrún Marta Jónsdóttir úr Völsungi en hún var m.a. valin til að keppa fyrir A-landslið Íslands í blaki auk þess að vera vaxandi blakari.
Þá voru hjónin Freydís Anna Arngrímsdóttir og Hörður Þór Benónýsson sæmd Gullmerki HSÞ en þau hafa í yfir 30 ár verið og eru enn öflugir máttarstólpar hjá leikdeild Umf. Eflingar og eru óþrjótandi við að halda úti og taka þátt í leikstarfi á félagssvæðinu.