Fara á efnissvæði
02. maí 2025

Iðkendum HHF hefur fjölgað um 45%

„Við þurftum að uppfæra mikið af lögum og reglugerðum sjóða og þess vegna var þetta langt þing,“ segir Birna Hannesdóttir, formaður Héraðssambandsins Hrafna-Flóka (HHF) um héraðsþing sambandsins á sunnudag. Á meðal breytinganna voru skipting lottótekna í samræmi við breyttar útgreiðslur  og reglugerð um Minningarsjóð Stefáns Jóhannesar Sigurðssonar, en breytingin gerir fleirum mögulegt að senda umsóknir í sjóðinn.

Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, var gestur þingsins ásamt Garðari Svanssyni frá ÍSÍ. Auður hélt ávarp þar sem hún sagði mikilvægt að íþróttahreyfingin gangi í takt og nefndi sérstaklega að tryggja verði að svæðisstöðvar íþróttahéraðanna verði starfræktar áfram. 

Guðbjörg Ebba Högnadóttir, annar tveggja starfsmanna svæðisstöðva íþróttahéraðanna á Vestfjörðum, fór yfir vinnu svæðisstöðvanna síðustu mánuði. Þar á meðal er ýmis konar greiningarvinna. Hugmynd sé að efna til málstofu um íþróttir á svæðinu. 

Ásgeir Sveinsson, framkvæmdastjóri HHF, hélt sömuleiðis áhugavert erindi, en þar kom m.a. fram að iðkendum hafi fjölgað um 45%. Nýjar deildir hafi litið dagsins ljós, s.s. í bogfimi, rafíþróttum og hnefaleikum. Þá hafi nýjungar litið dagsins ljós, s.s. sameiginleg stundaskrá íþróttastarfs á sunnanverðum Vestfjörðum. 

Ásgeir sagði mikinn uppgang hafa verið í barna og unglingastarfi innan aðildarfélaga HHF síðan árið 2023 þegar samstarfssamningar við styrktaraðila hafi verið endurnýjaðir. Markmið samninga hafi verið að styrkja það mikilvæga æskulýðs- og íþróttastarf sem HHF vinnur að meðal barna og unglinga á sambandssvæði HHF. Þessi uppgangur birtist meðal annars hjá aðildarfélögum í 45% fjölgun iðkenda og 40% fjölgun iðkana þar sem einstaklingur æfir meira en eina grein. Á sama tíma hefur skipulögðum æfingum hjá aðildarfélögum fjölgað úr 14 í 23. Nýjar deildir hafi sömuleiðis verið stofnaðar. 

Þá benti hann á að með tilkomu svæðisfulltrúa hafi skapast aukinn vettvangur samráðs og samvinnu milli héraða á Vestfjörðum, eitthvað sem var ekki jafn skipulagt og nú. 

„Við fögnum allri slíkri samvinnu og eru spennt að takast á við það sem koma skal. Við höfum fengið góða aðstoð frá starfsmönnum svæðisskrifstofa fyrir okkar hérað og vonum að fyrirkomulagið sé komið til að vera,“ sagði hann. 

Birna var endurkjörin sem formaður HHF ásamt þeim Gunnþórunni Bender og Lilju Sigurðardóttur. Í varastjórn eru þær Marion Worthmann, Þórkatla Soffía Ólafsdóttir og Nancy Helgadóttir.

Á þinginu var jafnframt samþykkt tillaga um úrsögn Ungmennafélags Barðstrendinga (UMFB) úr HHF. Úrsögnin var samþykkt og tók strax gildi. Engin starfsemi er í félaginu en það á hlut í félagsheimilinu Birkimel á Barðaströnd og sundlauginni á staðnum. 

 

Ítarlegri upplýsingar um héraðsþing Hrafna-Flóka