Fara á efnissvæði
18. mars 2024

Ingvi og Kristján sæmdir gullmerki UMFÍ

Ingi Árnason og Kristján Gíslason voru heiðraðir með gullmerki UMFÍ á 102. sambandsþingi Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB) í síðustu viku.

Guðrún Hildur Þórðardóttir, sambandsstjóri UMSB, hlaut starfsmerki UMFÍ á sama tíma. 

Guðrún var jafnframt endurkjörin sambandsstjóri en það er gert ár hvert. 

Ólafur Daði Birgisson, varasambandsstjóri UMSB, Sölvi G Gylfason gjaldkeri og Elisabeth Ýr meðstjórnandinn Mosbech Egilsdóttir stigu öll úr stjórninni og í þeirra stað komu Sigurbjörg Þórunn Marteinsdóttir sem varasambandsstjóri, Svala Svavarsdóttir sem gjaldkeri og Kristján Jóhannes Pétursson sem meðstjórnandi. 

Rakel Dögg Sigurgeirsdóttir er áfram á sínu seinna ári sem ritari.

Hallbera Eiríksdóttir var gestur þingsins fyrir hönd UMFÍ og afhenti viðurkenningar fyrir hönd UMFÍ. Ómar Bragi Stefánsson, verkefnastjóri UMFÍ, sat sömuleiðis þingið og kynnti þar Unglingalandsmót UMFÍ, sem haldið verður í Borgarnesi um verslunarmannahelgina. 

Fram kemur á heimasíðu UMSB að stærsta málið fyrir þinginu hafi snúið að úthlutunarreglum lottótekna en á þinginu voru lagðar til breytingar á úthlutunarreglum UMSB sem taka mið af úthlutunarreglum UMFÍ og ÍSÍ sem taka gildi 1. apríl næstkomandi. 

Tekið er fram að samkvæmt nýju reglunum verður miðað við íbúa 18 ára og yngri á hverju svæði fyrir sig og mun útbreiðslustyrkur ÍSÍ detta út að auki. 

Töluverð umræða skapaðist um þetta enda áhrifin þau að heildarinnkoma lottótekna til UMSB verður töluvert minni auk þess sem þau aðildarfélög sem ekki halda úti íþróttastarfi munu verða af nánast öllum lottótekjum. Miklar og málefnalegar umræður áttu sér stað og var tillagan að lokum samþykkt samhljóða en ákveðið að hún yrði tekin til endurskoðunar á næsta þingi þar sem enn er óljóst hvaða áhrif þessar breyttu úthlutunarreglur UMFÍ og ÍSÍ koma til með að hafa á sambandið.

Samhliða þessu var brýnt fyrir þeim aðildarfélögum sem munu verða af stærstum hluta tekna sinna með þessari breytingu að vera dugleg að sækja um í þá sjóði sem í boði eru hjá UMFÍ, eins og Fræðslu- og verkefnasjóð og Umhverfissjóð. 

Aðrar reglugerðarbreytingar urðu þær að kjörgengi íþróttafólks fyrir kjör íþróttamanneskju ársins var hækkað í 16 ár, í stað 14 áður enda gengur það gegn markmiðum íþróttahreyfingarinnar að afreksvæða börn.

Samþykktar voru samhljóða tvær tillögur er snúa að áskorun á Borgarbyggð. Fyrri tillagan kom frá Ungmennafélagi Reykdæla varðandi endurskoðun ákvörðunar um að loka sundlauginni á Kleppjárnsreykjum fyrir almenningi. Hin tillagan var frá stjórn UMSB  og var  fyrir sveitarstjórn um að halda áfram samtalinu við Strætó bs. varðandi hækkun fargjalda, sem hafa komið mjög illa við íþróttaiðkendur í sveitarfélaginu.

Hlaupahópurinn Flandri sótti um og hlaut inngöngu í UMSB, með þeim fyrirvara þó að ÍSÍ samþykki umsóknina. 

 

Allar myndir með þessari umfjöllun tók Gunnhildur Lind Hansdóttir og eru þær birtar með góðfúslegu leyfi UMSB.