Innganga íþróttabandalaga rædd á aukaþingi
Ákveðið var á 50. sambandsþingi UMFÍ sem lauk í dag að fela stjórn sambandsins að boða til aukaþings og taka þar fyrir eitt mál: Tillögu um inngöngu íþróttabandalaga að UMFÍ. Gangi það eftir fá flest íþróttabandalög landsins stöðu sambandsaðila UMFÍ og myndi fjöldi félaga innan UMFÍ fjölga gríðarlega.
Tillögur um lagabreytingar er varða inngöngu íþróttabandalaga voru ýmist felldar eða vísað frá á þinginu þar sem ekki náðist tilskyldur 2/3 hlutar atkvæða til að breyta lögum UMFÍ. Meira en helmingur atkvæðabærra þingfulltrúa studdi lagabreytingarnar eða 63 af 109. 12 sátu hjá og 34 voru á móti.
Málið hefur verið rætt ítarlega innan sambandsaðila UMFÍ um nokkurt skeið. Fram kom tillaga á þinginu að fela stjórn að boða til aukaþings varðandi málið og var hún samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta.
„UMFÍ er á nýrri vegferð til framtíðar. Þetta er tækifæri sem við verðum að skoða vel, ræða málin á faglegan og opinskáan hátt íþróttahreyfingunni til hagsbóta,“ segir Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, sem var endurkjörinn formaður UMFÍ til næstu tveggja ára.