Fara á efnissvæði
29. maí 2024

ÍRB sækir um aðild að UMFÍ

„Við fögnum samstarfinu við UMFÍ,“ segir Rúnar V. Arnarson, formaður Íþróttabandalags Reykjanesbæjar (ÍBR). Samþykkt var á ársþingi bandalagsins í byrjun vikunnar að sækja um aðild að UMFÍ. Stjórn UMFÍ mun taka boltann og afgreiða umsóknina.

Ef af verður er ÍRB sjötta og næstsíðasta íþróttabandalagið til að verða sambandsaðili UMFÍ frá árinu 2019. Fyrir eru Íþróttabandalag Akraness (ÍA), Íþróttabandalag Akureyrar (ÍBA) og Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR), sem fengu aðild að UMFÍ árið 2019. Undir lok síðasta árs bættist við Íþróttabandalag Hafnarfjarðar (ÍBH) og á vordögum Íþróttabandalag Suðurnesja (ÍS). 

Með aðild ÍRB að UMFÍ fellur niður bein aðild Keflavíkur, íþrótta- og ungmennafélags, og Njarðvíkur að UMFÍ. 
Innan ÍRB eru átján aðildarfélög og er barnastarf stór þáttur af íþróttastarfinu. 

Aðeins eitt Íþróttabandalag á Íslandi stendur eftir utan UMFÍ. Það er Íþróttabandalag Vestmannaeyja (ÍBV).
Rúnar segir ekki annað hægt en að ÍRB sæki um aðild að UMFÍ. Bæði sé bandalagið það næstsíðasta til að gera það. 

„Við viljum líka efla bandalagið og styrkja það. Svæðisstöðvarnar munu gera það líka,“ segir hann og bendir á að hann hafi rætt við formann Íþróttabandalags Suðurnesja um aukið samstarf og samvinnu. 
„Fólk er jákvætt með það. En nú er komið fram á sumar og við munum taka þráðinn upp í haust,“ segir hann. 

 

Heimasíða ÍRB