Íslandsleikarnir skemmtilegri en að vera í tölvunni

Íslandsleikarnir fóru fram á Selfossi um helgina. Þetta er annað skiptið sem leikarnir eru haldnir. Þeir fyrstu voru á Akureyri í fyrra. Íslandsleikarnir eru iþróttamót og opnar æfingar fyrir börn og ungmenni með fatlanir og þau sem ekki hafa fundið sig í hefðbundnu íþróttastarfi.
Á leikunum á Selfossi var boðið upp á opnar æfingar í frjálsum, fimleikum, handbolta, fótbolta og körfubolta. Þjálfarar og ungmenni frá íþróttafélögum á Selfossi aðstoðuðu við skipulag og utanumhald æfinganna.
Margt fleira var í boði um helgina en íþróttir. Þar var ofarlega söngur og gleði á setningu leikanna, pizzuveisla, sundlaugapartý og tónleikar bræðranna í VÆB.
Þátttakendur voru rúmlega 70 og er óhætt að segja að mikil gleði hafi ríkt alla helgina. Gott dæmi um þá ánægju sem ríkti á mótinu kom frá móður sem gaf sig á tal við einn starfsmann mótsins og mátti til með að segja honum frá upplifun barnsins hennar sem sagði: „Þetta var svo skemmtilegt að þetta var eiginlega skemmtilegra en að vera í tölvunni.“
Móðirin bætti við að meira hrós væri varla til í huga barnsins.
Íslandsleikarnir eru liður í verkefninu Allir með, sem er samstarfsverkefni Íþróttasambands fatlaðra (ÍF), Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) og Ungmennafélags Íslands (UMFÍ). Verkefnastjóri er Valdimar Gunnarsson en mótsstjóri á Íslandsleikunum var Rakel Magnúsdóttir.
Fjölmiðlar gerðu mótinu góð skil.
Myndir með fréttinni tók Magnús Orri Arnarsson.





