Fara á efnissvæði
21. október 2023

Íþróttahreyfingin á að vera í fararbroddi

„Íþróttahreyfingin á að vera í fararbroddi, stuðla að breytingum á vettvangi íþrótta. Við verðum að þróast og þroskast með samfélaginu og vera tilbúin til að takast á við áskoranir,“ segir Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ. Tímamót í íþróttahreyfingunni voru kjarninn í ávarpi sem hann flutti við setningu 53. Sambandsþings UMFÍ sem fram fer á Hótel Geysi í Haukadal um helgina. 

Þetta er með fjölmennasta þingi í sögu UMFÍ. Setningu þingsins sóttu 180 þingfulltrúar og gestir í gærkvöldi. 

Á þinginu eiga sæti eiga allir fulltrúar sambandsaðila UMFÍ, mismargir fulltrúar eftir stærð. Þingfulltrúar eru frá stjórnum íþróttahéraða af öllu landinu. Sambandsaðilar UMFÍ eiga rétt á 127 þingfulltrúum. Til samanburðar voru um 120 manns á síðustu tveimur þingum þó svo að þingfulltrúafjöldi sé sambærilegur.

Á meðal gesta voru Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ, fulltrúar sérsambanda, sveitarstjórnar Bláskógabyggðar og fleiri. Tónlistarmaðurinn Magnús Þór Sigmundsson opnaði sambandsþingið þegar hann flutti lagið Ísland er land þitt. Að loknu ávarpi formanns UMFÍ flutti hann lagið Og þess vegna erum við hér.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sendi góð orð til þingfulltrúa á upptöku.

Tillaga sem bætir íþróttahreyfinguna

Jóhann Steinar tók sem dæmi um tímamót aðild fjögurra íþróttabandalaga að UMFÍ, flutning þjónustumiðstöðvar UMFÍ í íþróttamiðstöðina í Laugardal, og fleiri þætti. Markverðustu tímamótin sagði hann tillögu sem ÍSÍ og UMFÍ hafi mótað saman um skiptingu afrakstri lottós á landsvísu.  Tímamótin felast ekki aðeins í tillögunni sjálfri heldur ekki síst í aðdraganda hennar, samvinnunni og tækifærunum sem hann taldi geta orðið til verði hún samþykkt.  

Tillagan var samþykkt á þingi ÍSÍ í vor og er í eðli sínu sú sama og lögð er fyrir þing UMFÍ nú. Tillagan felur í sér að komið verði á fót átta svæðastöðvum með samtals sextán starfsmönnum sem munu þjónusta íþróttahéruðin með samræmdum hætti.  Vinnuhópar UMFÍ og ÍSÍ sem unnu að tillögunni horfi til þess að sterkari íþróttahéruð og svæðastöðvar um allt land bæti skilvirkni íþróttahreyfingarinnar.  

„Þessi tillaga tekur mið af breyttum tímum og horfir til fyrirsjáanlegrar og líklegrar þróunar samfélagsins. Að mínu mati á samþykkt tillögunnar að geta leitt til þess að íþróttahreyfingin í heild nái enn frekari og betri árangri og framþróun á komandi árum,‟ sagði hann og áréttaði að markmið tillögunnar sé m.a. að taka við verkefnum stjórnvalda, létta álagi og ábyrgð af sjálfboðaliðum, fá aukið fjármagn inn í íþróttahreyfinguna, auka samstarf og samstarfsmöguleika,‟ sagði hann.  
 

Ávarp Jóhanns í heild sinni:

ÁVARP Á 53. SAMBANDSÞINGI UMFÍ Í OKTÓBER 2023   

 

Mennta- og barnamálaráðherra, framkvæmdastjóri ÍSÍ, þingfulltrúar og aðrir góðir gestir.   

Verið velkomin á 53. Sambandsþing UMFÍ hér við Geysi í Haukadal. Það er vel við hæfi að halda þingið hér á Hótel Geysi, hóteli sem stendur á grunni hins landsþekkta íþróttaskóla Sigurðar Greipssonar. Sigurður var einnig traustur liðsmaður og lét málefni UMFÍ mjög til sín taka á sinni tíð.  

Íþróttaskólinn var einstök uppeldisstofnun og hjarta félagsmálaskóla ungmennafélagshreyfingarinnar. Hann byggðist upp á miklum eldmóði og framsýni í þá tæpu hálfu öld sem hann starfaði; gildi sem ungmennafélagshreyfingin hefur löngum tileinkað sér. 

Tímabili sitjandi stjórnar er nú að ljúka, tímabili sem einkennst hefur af tímamótum. Við hófum vegferðina á Húsavík fyrir tveimur árum þegar COVID-faraldurinn hafði farið um heimsbyggðina í tvö ár með tilheyrandi samkomutakmörkunum og truflunum á daglegt líf. Og fór íþróttastarfið ekki varhluta af því. Starfsfólk og sjálfboðaliðar íþróttafélaga um allt land lögðu hart að sér til að halda starfinu gangandi og iðkendum á hreyfingu. Það skipti miklu máli og var - samfélaginu til heilla.  

Kannanir eftir COVID sýna okkur betur en áður að þeir iðkendur sem áttu þess kost að taka þátt í einhvers konar skipulögðu íþróttastarfi á meðan faraldurinn geisaði  líður almennt betur en þau sem standa utan við starfið eða eiga ekki kost á því að taka þátt í því. Í Ánægjuvoginni kemur m.a fram að: 

47% meta líkamlega heilsu sína góða miðað við 19% sem æfa ekki íþróttir. 
33% meta andlega heilsu sína góða miðað við 18% sem æfa ekki íþróttir. 
50% segjast vera hamingjusöm miðað við 33% sem æfa ekki íþróttir. 
64% fá nægan nætursvefn miðað við 44% sem æfa ekki íþróttir.  

Þetta staðfestir það sem við höfum lengi haldið fram um mikilvægi starfsins og er ein megin ástæða þess að við öll erum tilbúin að leggja verkefninu lið. 

Á þessum tíma sýndi íþróttahreyfingin; starfsfólk og sjálfboðaliðar; úr hverju hún er gerð. Hún fann lausnir til að standa undir þjónustu við iðkendur. En árangurinn hefði þó orðið minni ef fleiri hefðu ekki stutt við vinnuna. Skilningur og framlag stjórnvalda, undir forystu mennta- og barnamálaráðherra, var ómetanlegur. Forystufólk sveitarfélaga og starfsmenn þeirra lögðu líka hönd á plóg í sínu nærsamfélagi. Í raun sýndu Íslendingar að með góðri samstöðu og samvinnu getum við í sameiningu tekist á við nánast allt sem verða vill.  

Við erum nefnilega öll mögnuð - saman.  

Það er auðvitað ekki sjálfsagt að þessi skilningur og stuðningur sé fyrir hendi. Ég vil því nýta tækifærið og þakka öllum þeim sem létu þetta ganga upp.  

Margir erlendir samstarfsaðilar UMFÍ horfa öfundaraugum til okkar hér á Fróni því þau fengu ekki öll þennan stuðning. Þvert á móti var átak að koma íþróttastarfi aftur í gang í mörgum löndum og hefur sumt ekki enn náð fyrri styrk.  

Faraldurinn kenndi okkur margt og það fengum við vissulega staðfest að þegar íþróttahreyfingin gengur í takt og vinnur saman þá er hún kraftmikil. Hún sýndi miklu meiri styrk en við höfum áður séð. Og á því þurfum við að byggja til framtíðar.  

Við þekkjum það líklega öll að það getur krafist ákveðins hugrekkis að stíga ný skref og fara nýjar leiðir. Við hjá UMFÍ stigum nokkur slík á kjörtímabilinu. Í febrúar í fyrra seldum við húsnæði Þjónustumiðstöðvarinnar við Sigtún í Reykjavík. Þetta var stór ákvörðun enda húsnæðið gott og hafði það þjónað hreyfingunni vel í áratug. Í augum margra félaga var Sigtúnið heimili hreyfingarinnar.  

Það er reyndar svipuð saga með Sigtúnið og önnur hús og stórar ákvarðanir. Þegar það var keypt á sínum tíma var ekki almenn sátt um það. Húsið þótti bæði dýrt og stórt og sumum þótti það ekki henta starfsemi UMFÍ. Við söluna stendur þó uppúr að þetta reyndust happakaup fyrir hreyfinguna. Því stöndum við í þakkarskuld við þá sem tóku þessa ákvörðun á sínum tíma. 

Eins og gengur og gerist við flutninga var Þjónustumiðstöðin um tíma á hrakhólum á meðan nýtt húsnæði var standsett. Í byrjun þessa árs flutti Þjónustumiðstöðin svo í nýuppgert og glæsilegt húsnæði á þriðju hæð íþróttamiðstöðvarinnar við Engjaveg.   

Tímamótin fólust þó ekki aðeins í flutningnum sjálfum heldur líka í þeirri staðreynd að ÍSÍ og UMFÍ hafa aldrei áður verið undir sama þaki.  Þetta voru stór skref fyrir UMFÍ og enn kunna að vera skiptar skoðanir um húsnæðismálin innan hreyfingarinnar. Í fjölmennri hreyfingu verður þó slíkt að teljast fullkomlega eðlilegt en við vonum að þessi ákvörðun verði jafn gefandi og kaupin á Sigtúninu.  

Fram að þessu hefur flutningurinn reynst gæfuspor og vænti ég þess að svo verði áfram. Hann hefur stytt boðleiðir og hugmyndir hafa orðið til innan íþróttahreyfingarinnar sem annars hefðu sennilega aldrei orðið að veruleika. Þá hafa fleiri átt þess kost að kynnast gildum UMFÍ og hinum eina sanna Ungmennafélagsanda.

Það eitt og sér tel ég mikils virði! 

Í íþróttamiðstöðinni er hugmyndaríkt fólk sem þorir og kann að takast á við nýja hluti í íþróttahreyfingunni. Ég er sannfærður um að samband starfsfólks UMFÍ við aðra stjórnendur og starfsfólk í íþróttahreyfingunni hefur aldrei verið betra. Samskiptin og samstarfið innan íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarinnar hafa verið með besta móti og það skilar sér í því að við erum farin að taka skrefin saman og samhljómur er í taktinum. Slíkt leiðir til meiri skilvirkni og er án nokkurs vafa - samfélaginu til góða.  

Á Sambandsþingi UMFÍ á Laugarbakka fyrir fjórum árum urðu tímamót. Þar samþykktum við aðild þriggja íþróttabandalaga að UMFÍ. Síðan þá hefur Íþróttabandalag Hafnarfjarðar bæst í hópinn. Aðild ÍBH var sögulegur viðburður því þá voru öll íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu innan vébanda UMFÍ. Með aðild þessara bandalaga hefur stærð og kraftur hreyfingarinnar aldrei verið meiri. 

Með auknum krafti skiptir miklu máli að beisla hann með réttum hætti og setja stefnuna í rétta átt. Það gerum við með því að byggja ákvarðanir okkar á bestu fáanlegu gögnum. 

Eins og ég nefndi hér áður þá standa þau börn og ungmenni sem stunda íþróttastarf betur að vígi í samanburði við þau sem gera það ekki. Samt sem áður sjáum við í niðurstöðum rannsókna Íslensku Æskulýðsrannsóknarinnar og Ánægjuvogarinnar sem Rannsókn og greining standa að ásamt upplýsingum úr lýðheilsuvísum Embættis landlæknis, þá er  mikið verk framundan. Við getum ekki látið staðar numið.

Lýðheilsan er viðvarandi verkefni. Nýjar áskoranir munu taka við af öðrum. Og við þeim þurfum við að bregðast - saman.  

Á Íslandi hefur fjölbreytileikinn líklega aldrei verið jafn mikill. Iðkendur hafa sjaldan haft ólíkari þarfir. Íþrótta- og ungmennafélög landsins þurfa að opna dyr sínar enn frekar svo að allir geti tekið þátt og það hver á sínum forsendum. Þetta kallar á aukna vinnu og skapar álag, sérstaklega fyrir fámennari félög.  

Álagið birtist okkur með misjöfnum hætti. Sumir komast áfram á hnefanum á meðan við sjáum að aðrir bugast. Það gengur jafnvel svo langt að líkaminn lætur undan þó viljinn sé til staðar. Hér verðum við að stíga inn í því það er okkar hlutverk að tryggja að störf innan íþróttahreyfingarinnar verði eftirsóknarverð með því að bjóða uppá heilbrigt starfsumhverfi. Við verðum að læra að sníða okkur stakk eftir vexti og forgangsraða þeim verkefnum sem á okkur eru sett, þrátt fyrir auknar kröfur og mikinn vilja. Annars er hætta á því að flótti verði frá hreyfingunni, því kröfurnar og álagið verður of mikið. Það er þvert á það sem við viljum standa fyrir, því aðdráttaraflið á að vera gleði og gaman.  

Við stóðum frammi fyrir miklu verkefni í Ungmennabúðunum á Laugarvatni þegar mygla greindist í húsnæðinu og við urðum að hafa hraðar hendur. Rétt áður höfðum við farið í stórt átak þegar við tókum við rekstri Skólabúðanna á Reykjum og komum starfseminni þar í gang á nokkrum vikum. Á sama tíma var allt á fullu í undirbúningi landsmóta auk daglegrar starfsemi. Þetta reyndi á en tókst með forgangsröðun verkefna og samhentu átaki. Við höfum sýnt það og sannað að við getum leyst verkefnin svo eftir sé tekið - þegar við vinnum saman. Því vil ég á þessari stundu ítreka þakkir mínar til allra þeirra sem lögðu sitt á vogarskálarnar svo öll þessi verkefni gengju upp.  

Því miður er saga Ungmennabúða UMFÍ á Laugarvatni á enda þrátt fyrir mikinn vilja okkar hjá UMFÍ og Bláskógarbyggðar til að halda starfinu gangandi. Kostnaður við endurbætur og framtíðar rekstur er of mikill til að ungmennafélagshreyfingin geti ein og sér staðið undir því. En sagt er að allt hafi sinn tíma og við vitum ekki hvað framtíðin mun bera í skauti sér. Vonandi fáum við tækifæri til að hefja starfsemina að nýju með aðkomu fleiri aðila, hver veit?  

Á jákvæðari nótum þá hefur saga Skólabúðanna á Reykjum nú tekið við og það hefur reynst farsælt skref. Húsnæðið var allt tekið í gegn og endurnýjað í afar góðu samstarfi við sveitarfélagið Húnaþing vestra. Aðstaða Skólabúðanna býður upp á mikla og fjölbreytta möguleika fyrir ungmennafélagshreyfinguna og viljum við endilega hvetja ykkur til að koma með hugmyndir að nýtingu aðstöðunnar þar til framtíðar. 

Og enn stöndum við á tímamótum. Á þessu þingi liggur fyrir tillaga um skiptingu afraksturs af lottóinu á landsvísu. Tímamótin felast ekki aðeins í tillögunni sjálfri heldur ekki síst í aðdraganda hennar, samvinnunni og tækifærunum sem geta orðið til og ætlað er að hjálpa okkur við að takast á við framtíðina.  

Þessi tillaga tekur mið af breyttum tímum og horfir til fyrirsjáanlegrar og líklegrar þróunar samfélagsins. Óhætt mun að fullyrða að UMFÍ og ÍSÍ hafi aldrei áður verið jafn samstíga um þau skref sem nauðsynlegt er að taka.

Að mínu mati á samþykkt tillögunnar að geta leitt til þess að íþróttahreyfingin í heild nái enn frekari og betri árangri og framþróun á komandi árum.  

Málefni íþróttarhéraða hafa lengi verið í deiglunni. Íþróttahéruðin voru skipulögð við upphaf tuttugustu aldarinnar fyrir rúmum eitt hundrað árum og hafa lítið breyst síðan þótt allt umhverfið hafi tekið stakkaskiptum. Að minnsta kosti 25 ár eru síðan fyrstu skýrslurnar um breytingar litu dagsins ljós með ýmsum tillögum – sem aldrei urðu að veruleika. Við getum ekki verið fulltrúar kyrrstöðu. Íþróttahreyfingin á í eðli sínu að vera kvik og snörp. Hún verður að vera sveigjanleg og vera í fararbroddi og hún verður að nýta tækifærin. Við vitum að framundan eru verkefni sem hreyfingin þarf að sinna og þeim fylgja kröfur og ábyrgð. Við verðum að skýra verklag okkar, forgangsraða og bæta slagkraftinn til að tryggja gott starf fyrir alla, alls staðar.  

Á síðasta þingi var stjórn falið að vinna að þessum málum og leggja tillögu þess efnis fyrir þetta þing.

Stofnaðir voru vinnuhópar hjá UMFÍ og ÍSÍ sem síðar unnu saman. Fólk víðs vegar að af landinu var fengið til að sitja í vinnuhópunum og endurspeglaði það ólíka hagsmuni íþróttahéraða. Ýmsar útfærslur voru ræddar og að lokum lá fyrir sameiginleg tillaga þessara hópa sem felur í sér að komið verði á fót átta svæðastöðvum með samtals sextán starfsmönnum sem munu þjónusta íþróttahéruðin með samræmdum hætti.  

Vinnuhóparnir horfa til þess að sterkari íþróttahéruð og svæðastöðvar um allt land bæti skilvirkni íþróttahreyfingarinnar og geri þeim og starfsfólki þeirra betur kleift en nú að takast á við fyrirliggjandi verkefni og ekki síður öll þau fyrirséðu verkefni sem eru við sjóndeildarhringinn.  

Markmið tillögunnar er m.a. að létta álagi og ábyrgð af sjálfboðaliðum, fá aukið fjármagn inn í íþróttahreyfinguna þar sem hlutfallslega hærri fjárhæð fer út á landsbyggðina, samstarfið verður meira og samstarfsmöguleikarnir fleiri.   

Tillagan sem nú er lögð fyrir þing UMFÍ er í eðli sínu sú sama og samþykkt var á þingi ÍSÍ í vor þar sem öll íþróttahéruð áttu fulltrúa. 

Það er trú mín að með aukinni samvinnu og betra skipulagi takist okkur að virkja enn frekar kraftinn sem býr í hreyfingunni. Þessi tillaga á að tryggja að við verðum öflugri sem kraftmikil heild og betur í stakk búin til að takast á við verkefni til framtíðar.  

Einhver ykkar voru á þingi ÍSÍ í vor. Þar nefndi ég að íþróttahreyfingin ætti alltaf að vera í fararbroddi. Hún ætti að stuðla að breytingum á vettvangi íþrótta.  Við verðum að þróast og þroskast með samfélaginu og vera – eins og okkur er von og vísa – tilbúin til að takast á við áskoranir.  
Það gerum við með því að breytast í takt við tíðarandann, vinna saman, nýta tækifærin og ná árangri.   
Að síðustu!  

Við heyrðum áðan lagið Ísland er land þitt eftir Magnús Þór, sem býr á sambandssvæði HSK.  
Við þekkjum lagið eins og það sé sjálfur þjóðsöngurinn – og reyndar hefur verið mælst til þess að lagið verði sett á þann stall! Lagið blæs okkur kraft í brjóst, það eflir okkur og styrkir og við finnum fyrir Ungmennafélagsandanum.  

En Magnús gefur okkur einnig innblástur í öðru lagi sem hann flutti með Jónasi Sigurðssyni, sem einnig er af HSK svæðinu. Textinn þar rammar inn ákveðna hugsun, sennilega ástæðuna fyrir því af hverju við erum í þessu öll saman. Af hverju við þurfum að halda áfram og breytast. Í laginu syngja þeir um samstöðuna, um ástina og lífið með nýjum hætti - hvernig sem fari þá stöndum við saman, við tökum því sem að höndum ber.  
… Og eins og segir í laginu: „þess vegna erum við hér í kvöld, þú með mér og ég með þér, og við eigum vini góða, dætur, syni, börn og barnabörn“. 

Þegar upp er staðið erum við sem störfum í þriðja geiranum ekki bara að því fyrir okkur sjálf heldur ekki síst fyrir þau sem standa okkur nærri og erfa munu landið.   

Kæru ungmennafélagar og gestir! 

Nýtum eldmóðinn og framsýnina sem þessi staður er þekktur fyrir og hugsum til framtíðar. Göngum í takt og leysum kraft íþróttahreyfingarinnar úr læðingi í störfum okkar hér á þinginu. Því við erum sterkust – saman! 

Ég segi 53. Sambandsþing UMFÍ hér við Geysi í Haukadal sett.