Fara á efnissvæði
30. október 2020

Íþróttastarf fellur niður og sundlaugar loka til 17. nóvember

Íþróttastarf verður óheimilt og sundlaugum lokað um allt land næstu 2-3 vikurnar eða til 17. nóvember, samkvæmt nýjum hertum sóttvarnaráðstöfunum sem taka gildi á miðnætti í kvöld. Til viðbótar þrengjast fjöldatakmarkanir úr 20 manns í 10. Einungis börn fædd 2015 og yngri eru undanþegin 2 metra reglu og grímuskyldu.

Ríkisstjórnin gerði grein fyrir hertum sóttvarnareglum í dag sem byggja að stórum hluta á minnisblaði sóttvarnalæknis. Ríkisstjórnin fundaði um tillögurnar í morgun.  

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði samfélagssmit töluvert útbreidd og þurfi því að herða aðgerðir.

Í minnisblaði sóttvarnalæknis kemur fram að smit í samfélaginu sé enn mikið, þrátt fyrir hertar sóttvarnaaðgerðir sem gripið var til 20. október. Því sé hætta á að hópsýkingar brjótist út og valdi enn meira álagi á heilbrigðiskerfið sem sé mikið fyrir. 

 

Íþróttastarf óheimilt

Reglugerð heilbrigðisráðherra var birt samhliða blaðamannafundinum. Þar er áréttað frekar að íþróttir, þar með talið æfingar og keppnir, barna og fullorðinna hvort sem er innan- eða utandyra, með eða án snertingar eru óheimilar. Einstaklingsbundnar æfingar án snertingar eru heimilar, svo sem útihlaup og sambærileg hreyfing.

Sund- og baðstöðum sem og líkamsræktarstöðvum skal lokað.

 

Undanþágur frá alþjóðlegum keppnisleikjum

Ráðherra getur þó veitt undanþágur frá takmörkun á samkomum vegna samfélagslega ómissandi innviða sem mega ekki stöðvast en líka undanþágu frá íþróttastarfi fyrir einstaka viðburði, svo sem vegna alþjóðlegra keppnisleikja hér á landi, enda sé gætt fyllstu sóttvarnaráðstafana að öllu leyti.

Tekið er sérstaklega fram í reglugerð ráðherra að við veitingu undaþágu skuli leitast við að grípa til annarra aðgerða þannig að gætt sé að smitvörnum eins og kostur er.

 

Lesa má frekar um hertar sóttvarnaráðstafanir í frétt heilbrigðisráðuneytis