Íþróttir eiga að vera fyrir alla
„Það er allt á fullu í því að brjóta niður múra og hefur aldrei verið betra tækifæri til að hjóla í þetta af fullum krafti,“ segir Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ. Hún var með erindi á málþinginu Eru íþróttir fyrir alla? sem ÖBÍ réttindasamtök stóðu fyrir í síðustu viku.
Á meðal þeirra sem héldu ávarp á málþinginu voru þjálfarinn Sindri Viborg, sem jafnframt er formaður Tourette samtakanna og meðlimur barnamálahóps ÖBÍ réttindasamtaka, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, yfirþjálfari knattspyrnudeildar hjá Öspinni og landsliðskona í fótbolta, Valdimar Gunnarsson, sem fjallaði um verkefnið Allir með, Hjalti Sigurðsson, æskulýðs- og tómstundaráðgjafi, fjallaði um finnska módelið, Sólný Pálsdóttir, sagði reynslusögu móður, Ragnheiður Lóa Stefánsdóttir, sjúkraþjálfari á LSH og hjá meistaraflokki kvenna HK í knattspyrnu, spurði hvað verði um hin efnilegu og Haraldur Þorleifsson átti lokaorðin.
Kári Jónsson, landsliðsþjálfari hjá ÍF í frjálsum íþróttum, stýrði þinginu.
Lýst eftir fyrirmyndum
Auður var framkvæmdastjóri íþróttafélagsins Gerplu 2006-2015 þar sem iðkendum með fatlanir var boðið að koma og æfa með iðkendum sem ekki voru með fötlun. Árið 1998, þegar hún var tvítugur þjálfari hjá Gerplu fór hún að bjóða upp á íþróttir fyrir iðkendur með fötllun. Hún viðurkenndi að þetta hefði verið svolítil brekka og hefði áreiðanlega aldrei farið út í verkefnið ef hún hefði spáð meira í það á sínum sínum að opna dyr íþróttafélagsins fleirum en þá stóðu opnar.
„Áskorunin er hvort íþróttir eru fyrir alla. Svarið er já í sumum tilfellum en nei í öðrum,“ sagði hún og lagði áherslu á að íþróttir geti alveg verið fyrir alla. Einstaklinga með fatlanir í íþróttum vanti fyrirmyndir, finna þurfi lausnir til að allir geti verið með og auka þarf fræðslu til að gera það auðveldara.
„Við þurfum að eiga samtalið, auka sýnileikann og auka og fá stuðning til þess að fara af stað,“ sagði hún og minnti á að mennta- og barnamálaráðuneytið og stjórnvöld og raunar íþróttahreyfingin öll hafi metnaðarfulla íþróttastefnu. Hún minnti jafnframt á Fræðslu- og verkefnasjóð UMFÍ sem sambandsaðilar UMFÍ geta sótt í til að styðja við íþrótta- og ungmennafélög og hvetja til samvinnu við önnur samtök sem vilja gera sem flestum kleift að stunda íþróttir.
Íþróttir fyrir alla
Auður velti fyrir sér framtíðinni, áherslur og breyttar þarfir og sagði allt snúast um að einstaklingurinn sé í öndvegi og allt sem hann gerir sé sniðið að þörfum hans. Starf íþróttafélaga þurfi á einhverjum tíma að taka mið af því, af því að þau eru hluti af samfélaginu.
„Ég vel mér mína rétti á Eldum rétt, horfi á mína þætti á Netinu og geri það sem ég vil eins og ég vil þegar ég vil. Allt er á mínum forsendum,” benti Auður Inga á og bætti við að allt sé líka að breytast. Gamlir múrar að brotna niður, hindranir að falla og fleiri að taka þátt í samfélaginu en áður.
„Í gamla daga voru bara til Ken og Barbie. En nú eru útgáfurnar orðnar miklu fleiri,“ sagði hún og sýndi mynd af allskonar útfærslum, þar á meðal Barbie í hjólastól og benti á að Mattel, sem framleiði Barbie, hafi sett á markað dúkku með downs-heilkenni.
Auður sagði samfélagið breytast óháð starfi íþróttafélaga og fjölbreytileikinn sé að fá meira vægi. Því hafi aldrei gefist betra tækifæri en nú fyrir íþróttafélög til að opna dyrnar fyrir sem flestum og mæta þörfum fólks svo það geti stundað íþróttir með sínu félagi.
„Það hefur aldrei verið mikilvægara en nú að byggja brýr og rampa, svo börn geti stundað sína íþrótt. Þetta snýst um að fara úr litla fiskabúrinu í það stóra í stað þess að fara aldrei af stað af því að einhver sagði að við gætum það ekki,“ sagði hún og benti á að UMFÍ vinni að allskonar breytingum til að auðvelda félögum þetta á okkar vettvangi.