Fara á efnissvæði
18. nóvember 2024

Jóhann Björn og Vignir sæmdir Gullmerki UMFÍ

Þeir Jóhann Björn Arngrímsson og Vignir Örn Pálsson voru sæmdir Gullmerki UMFÍ á 80 ára afmæli Héraðssambands Strandamanna (HSS) í gær. Þeir hafa báðir verið formenn héraðssambandsins, setið í stjórn þess í mörg ár og unnið ötullega að markmiðum þess, stuðlað að bættri heilsu og velferð Strandamanna á öllum aldri og aukið samheldni þeirra með ýmsu móti. 

Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, var á meðal gesta í afmælinu og afhenti hún þeim gullmerkin. 

Auður Inga flutti ávarp og óskaði stjórn og félögum til hamingju með afmælið og hvatningarverðlaunin, sem héraðssambandið hlaut á sambandsráðsfundi UMFÍ í síðasta mánuði fyrir eftirtektarvert og óeigingjarnt starf Skíðafélags Strandamanna og uppbyggingu aðstöðu þess. Skíðafélag Strandamanna var stofnað í lok árs 1999 og hefur verið í sérstaklega örum vexti undanfarin ár. Eftir byggingu nýs skíðaskála árið 2015 hefur félagið unnið ötullega að því að vera með eitt fremsta skíðagöngusvæði landsins. Þess má geta að Vignir Örn kom að stofnun Skíðafélags Strandsmanna og var hann fyrsti formaður þess. 

Auður Inga benti jafnframt á að Gullmerki eru ekki afhent á hverjum degi. Við hæfi sé að gera það á svæði HSS, á heimavelli Strandamannsins sterka sem fékk þau síðast. Strandamaðurinn er Hreinn Halldórsson, sem búsettur er á sambandssvæði Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (UÍA). 

Á meðal annarra ræðumanna í afmælinu var Birna Hannesdóttir, annar tveggja starfsmanna svæðisstöðva íþróttahéraðanna, sem starfar á vestfjörðum. Hún sagði frá starfinu og samstarfi við sveitarfélög víða um land. 

Gullmerki UMFÍ er næstæðsta sæmdarviðurkenning UMFÍ og er það veitt þeim sem hafa um árabil unnið öflugt starf fyrir ungmennafélagshreyfinguna, verið í forystu í héraði eða á vettvangi UMFÍ eða í áratugi unnið ötullega að eða tekið þátt í verkefnum UMFÍ. 

 

Hér má sjá fleiri myndir frá afmæli HSS.