Jóhann Steinar: Forvarnargildi íþrótta er ótvírætt
Yfir 60% barna í efstu bekkjum grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu stunda íþróttir. Iðkendum líður almennt vel, ungir iðkendur eru ánægðir með félagið sitt. Ungir iðkendur telja þeir heilsu sína betri en jafningja sinna sem standa utan íþróttafélaga. Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, segir það góðar fréttir enda forvarnargildi skipulags íþróttastarfs ótvírætt.
Jóhann Steinar hélt ávarp í veislu Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK) þar sem 100 ára afmæli sambandsins var fagnað. Fjöldi gesta mætti í afmælisveisluna, sem haldin var í Hlégarði í Mosfellsbæ, sem er á sambandssvæði UMSK. Guðmundur G. Sigurbergsson, formaður UMSK, hélt þar ávarp ásamt fleirum og var nokkuð um heiðranir af hálfu UMSK, UMFÍ og ÍSÍ.
Jóhann afhenti fjögur gullmerki UMFÍ á afmælishátíðinni. Þau hlutu Elsa Jónsdóttir, Kristján Sveinbjörnsson, Stefán Konráðsson og Valdimar Gunnarsson.
Íþróttahreyfingin fylgist náið með
Jóhann Steinar benti á marga jákvæða þætti tengda íþróttaiðkun. En hann benti þó á að um 80 prósent barna og ungmenna sem hættir í íþróttum geri það vegna þess að það hefur misst áhuga á íþróttinni. Íþróttahreyfingin verði því að leita allra leiða til að uppfylla mismunandi þarfir iðkenda svo sem flestir geti tekið þátt og verið með í starfinu.
Íþróttahreyfingin fylgist náið með þróun mála, að sögn Jóhanns.
„Til að fylgjast með stöðunni og líðan iðkenda hjá íþróttafélögum stöndum við hjá UMFÍ ásamt ÍSÍ saman að Ánægjuvoginni. Það felur í sér að spurningalistar eru lagðir fyrir nemendur í 8. til 10. bekk grunnskóla og var síðasta könnun gerð í vor. Í niðurstöðum hennar kemur fram að um og yfir 60% barna í efstu bekkjum grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu stunda íþróttir. Það eru jákvæðar fréttir og aðeins yfir meðaltali á landinu öllu. Við sjáum líka að iðkendum líður almennt vel, ungir iðkendur eru ánægðir með íþróttafélagið sitt og þeim sem stunda íþróttir í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi vegnar almennt betur í lífinu. Þeim líður nefnilega ekki aðeins betur – andlega – heldur telja þeir heilsu sína betri en jafningja sinna sem standa utan íþróttafélaga. Niðurstöður allra kannana staðfesta öðru fremur að starfið hefur gríðarlegt forvarnargildi og dregur úr líkum þess að ungir iðkendur leiðist út í óæskilega hegðun,“ sagði hann.
Ávarp Jóhanns í heild sinni
Formaður UMSK, kæru félagar. Til hamingju með 100 ára afmælið.
Segja má að við hjá UMFÍ höfum fagnað afmæli UMSK frá því í fyrra en þá hófum við undirbúning á Íþróttaveislu UMFÍ og UMSK. Það var vel við hæfi að halda upp á þennan áfanga með stórri veislu.
UMSK er einn af stærstu sambandsaðilum UMFÍ og nær ásamt Íþróttabandalagi Reykjavíkur og Íþróttabandalagi Hafnarfjarðar yfir starfsemi alls skipulags íþróttastarfs á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er engin smávegis starfsemi enda héraðið með marga risa í íslensku íþróttalífi innanborðs, eins og Breiðablik, HK, GKG, Stjörnuna, Aftureldingu, Gróttu og mörg fleiri.
Til að fylgjast með stöðunni og líðan iðkenda hjá íþróttafélögum stöndum við hjá UMFÍ ásamt ÍSÍ saman að Ánægjuvoginni. Það felur í sér að spurningalistar eru lagðir fyrir nemendur í 8. til 10. bekk grunnskóla og var síðasta könnun gerð í vor.
Í niðurstöðum hennar kemur fram að um og yfir 60% barna í efstu bekkjum grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu stunda íþróttir. Það eru jákvæðar fréttir og aðeins yfir meðaltali á landinu öllu.
Við sjáum líka að iðkendum líður almennt vel, ungir iðkendur eru ánægðir með íþróttafélagið sitt og þeim sem stunda íþróttir í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi vegnar almennt betur í lífinu. Þeim líður nefnilega ekki aðeins betur – andlega – heldur telja þeir heilsu sína betri en jafningja sinna sem standa utan íþróttafélaga.
Niðurstöður allra kannana staðfesta öðru fremur að starfið hefur gríðarlegt forvarnargildi og dregur úr líkum þess að ungir iðkendur leiðist út í óæskilega hegðun.
Þá kemur einnig fram að töluvert færri börn í jaðarhópum taka þátt í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Við sjáum líka að 80 prósent barna og ungmenna sem hættir í íþróttum missir einfaldlega áhugann á iðkuninni. Margt á auðvitað sinn þátt í því en þessar upplýsingar draga öðru fremur fram að við stöndum frammi fyrir margþættum áskorunum. Við þurfum að koma til móts við börn og ungmenni sem standa í jaðrinum eða haft misst áhugann. Við í íþróttahreyfingunni þurfum að vera sveigjanleg, leita allra leiða til að uppfylla mismunandi þarfir iðkenda svo sem flestir geti tekið þátt og verið með í starfinu.
Verkefnin eru vissulega fjölmörg. Ég dáist að því frábæra starfsfólki sem tekst á við dagleg störf með eldmóð og fagmennsku að leiðarljósi. Síðast en ekki síst eru það svo sjálfboðaliðarnir sem leggja fram ótrúlega mikið og óeigingjarnt starf til að tryggja að þetta gangi svo allt saman upp. UMSK og íþróttafélögin á svæðinu byggja á gríðarlegum mannauð sem skilar árangri sem eftir er tekið.
UMSK stendur mér sérstaklega nærri. Undir þeirra merkjum er minn bakgrunnur og hef ég átt þess kost að starfa með mörgu af því frábæra fólki sem er innan vébanda þess. Allir þessir aðilar hafa í raun gefið mér það mikið að ég hef verið tilbúinn til að leggja mitt af mörkum í sjálfboðastarfi því ábatinn af samverunni vegur upp á móti tímanum sem lagður er í púkkið. Það besta af öllu er þó að vera í þeirri stöðu að geta sagt að þetta starf hefur í raun gefið mér margfalt meira til baka því innan hreyfingarinnar hef ég eignast mjög góða vini sem ég er mjög þakklátur fyrir og fyrir mér er það ungmennafélagsandinn í hnotskurn.
UMSK – til hamingju með daginn!