Fara á efnissvæði
05. maí 2023

Jóhann Steinar: Íþróttahreyfingin þarf að breytast í takt við tíðaranda

„Okkur er kennt í sögubókum að þau sem standa eftir með lokuð augu sjá ekki sólina rísa og verða að steinum eins og tröllin í þjóðsögunum. Við megum ekki verða steinrunnin. Þvert á móti þurfum við að breytast í takt við tíðarandann,“ sagði Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ.

Jóhann Steinar flutti ávarp við setningu 76. Íþróttaþings ÍSÍ sem hófst í dag og fer fram í Haukaheimilinu í Hafnarfirði fram á morgundag. Í ávarpinu hvatti Jóhann Steinar þingfulltrúa til að styðja tillögu sem felur í sér breytingu á fyrirkomulagi íþróttahéraða og sameiginlega skiptingu fjármagns frá ÍSÍ og UMFÍ til íþróttahéraða. Breytingin sagði hann marka tímamót.

 

 

Það er óþarfi að hræðast tímamót. Þau eru áskorun, úrlausnarefni sem við í íþróttahreyfingunni erum vön að standa frammi fyrir,  kunnum að vinna saman úr og finna bestu leiðirnar,“ sagði hann.

 

Breyting felur í sér betri þjónustu

Bæði Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ, og Jóhann Steinar, sögðu í ávörpum sínum frá tillögu vinnuhóps ÍSÍ og UMFÍ um skipulag íþróttahéraða sem liggur fyrir þingi ÍSÍ. Sambærilegar tillögur verða lagðar fram á þingi UMFÍ í haust.

 

 

Jóhann benti á að íþróttahéruðin séu nú 25 talsins. Skipulag þeirra og fyrirkomulag hafi hins vegar ekki breyst um áratuga skeið. Þess í stað hafi héruðin þróast hvert í sína áttina.

Tillögur starfshóps ÍSÍ og UMFÍ fela í sér í stuttu máli að komið verði á fót sameiginlegum starfsstöðvum vítt og breytt um landið sem hafi það samræmda hlutverk að þjónusta íþróttahéruðin í sínu nærumhverfi. Horft er til þess að sterkari íþróttahéruð og starfsstöðvar um allt land auki skilvirkni og viðbragðsflýti innan íþróttahreyfingarinnar. Það muni einfaldlega styrkja stefnumótandi vinnu og aðgerðir á landsvísu og stuðla þannig að farsæld barna og annarra sem nýta þjónustu hreyfingarinnar, skila sér í betri nýtingu á starfskröftum, stuðningur við einstaka íþróttafélög verði meiri og þjónusta við iðkendur enn betri.

 

Vitnaði til Hafsteins Þorvaldssonar

Jóhann sagði þetta jákvæðar breytingar hvatti til stuðnings við þær.

„Við eigum að þróast og þroskast með samfélaginu. Fylgjast með samtímanum. Þetta er nálgun sem á að bæta samfélagið. Því verðum við að taka samtalið og vega og meta hvort það skref sem lagt er til sé í raun ekki betra en það fyrirkomulag sem er við lýði í dag. Það er sá samanburður sem þarf að horfa til og höfum í huga að það að taka ekki ákvörðun er í raun ákvörðun um óbreytta stöðu,“ sagði hann og vitnaði til orða Hafsteins Þorvaldssonar, formanns UMFÍ í áratug og drifkrafts ungmennafélagshreyfingarinnar um langt skeið. Á lokaári sínu sem formaður hafi hann hvatt ungmennafélaga og forystufólk í íþróttahreyfingunni til dáða með eftirfarandi orðum í Skinfaxa árið 1979.

„Það er heitasta ósk mín til samtakanna nú, að þau megi ævinlega njóta slíkrar viðurkenningar að til forystu í samtökunum veljist sannir vökumenn … sem eru opnir fyrir nýjungum í starfi, þá munu allir félagsmenn una glaðir við sitt og ganga ótrauðir til starfa…“

 

Hafsteinn á þingi UMFÍ árið 1979.

 

Ávarp Jóhanns í heild sinni:

Þingforsetar, forseti ÍSÍ, ráðuneytisstjóri, bæjarstjóri, framkvæmdastjórn, þingfulltrúar og aðrir góðir gestir.

Á þessu þingi verða tímamót. Ég trúi ekki öðru en að hér verði nýtt sú reynsla sem við öðluðumst í faraldrinum. Við í íþróttahreyfingunni lærðum þar að við vinnum afar vel saman þegar þörf krefur og getum gengið í takt að sameiginlegu markmiði þótt við njótum þess að keppa hvert á móti öðru innan vallar.

Við sem störfum í íþróttahreyfingunni vitum að allt starfið byggir á seiglu, þori og það krefst lausnamiðaðrar hugsunar. Iðkendur mæta til æfinga á ýmsum tímum sólarhringsins og læra að takast á við sjálfan sig og aðra. Starfsmenn eru alltaf á vaktinni því handtökin eru mörg og krafan um þjónustu og árangur er mikil og verður meiri. Framlag sjálfboðaliða er svo límið sem heldur starfinu saman og gangandi.

Rekstur íþróttafélaga, viðburðir eins og unglingalandsmót og drulluhlaup, ungmennaráðstefnur og allir kappleikir íþrótta- og ungmennafélaga væru lítið án þeirra þúsunda sjálfboðaliða sem koma að starfinu á hverju ári.

Þess vegna skiptir höfuðmáli að starfið sé skemmtilegt án þess að gefinn sé afsláttur af tryggri umgjörð og fagmennsku í allri okkar vinnu. Við í ungmennafélagshreyfingunni köllum það ungmennafélagsandann þegar við finnum fyrir gleðinni í slíku starfi.

Allt starf þarf að vera gefandi og finna þarf gleðina í því. Þegar fólk veit að hverju það gengur þá er það tilbúið til að leggja sitt af mörkum svo viðburðir geti orðið að veruleika, sjálfum sér og samfélaginu til upplyftingar.

Við stöndum á tímamótum á þessu þingi, því hlutverk okkar er að tryggja framtíðina. Framtíð sem er öruggari, betri og skemmtilegri.

Það er óþarfi að hræðast tímamót. Þau eru áskorun, úrlausnarefni sem við í íþróttahreyfingunni erum vön að standa frammi fyrir,  kunnum að vinna saman úr og finna bestu leiðirnar.

Tímamótin eru mörg hjá UMFÍ. Skemmst er að minnast aðildar Íþróttabandalags Hafnarfjarðar að UMFÍ seint á síðasta ári en við það eru öll íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu komin í raðir UMFÍ. Aðild þriggja íþróttabandalaga að UMFÍ árið 2019 var stórt og gott skref og sönnun þess að samvinna opnar samtal, bætir boðleiðir og er lykill að árangri.

En eitt er mér þó sérstaklega ofarlega í huga um þessar mundir.

Í byrjun þessa árs fluttum við þjónustumiðstöð okkar í Reykjavík inn í Íþróttamiðstöðina í Laugardal. Það voru tímamót í ungmennafélagshreyfingunni því nú erum við í fyrsta sinn undir sama þaki og stór hluti íþróttahreyfingarinnar á Íslandi og við það aukast enn frekar tækifæri til samstarfs.

En þetta var auðvitað áskorun líka.  

Í flutningnum lagði stjórn UMFÍ mikla áherslu á það að í nýjum húsakynnum yrði gott starfsumhverfi, góð hljóðvist og lýsing.  Ánægja starfsfólks er sönnun þess að okkur tókst ætlunarverkið.

Stór hluti ánægjunnar er einnig sá að mjög fljótlega eftir að við fluttum í húsið fundum við fyrir jákvæðum breytingum.

Flutningurinn hefur reynst gæfuspor. Hann hefur stytt boðleiðir, hugmyndir verða til, mótast og margar þeirra verða að veruleika í návígi við það kröftuga og hugmyndaríka fólk sem þorir og kann að takast á við nýja hluti í íþróttahreyfingunni.

Í húsinu er einstök samvinna. Þar þorir fólk að takast á við áskoranir. Vinna saman að því að gera allt betra, eins og alls staðar innan vébanda hreyfingarinnar.

Við erum öll afar spennt fyrir þeim skrefum sem við munum stíga saman í framtíðinni. Án vafa tel ég það verða gæfuspor.

Að framansögðu viljum við þakka Lárusi Blöndal, Andra Stefánssyni, starfsfólki ÍSÍ og öllum í húsinu kærlega fyrir góð samskipti og einstaklega góðar móttökur.

Íþróttahreyfingin á að vera í fararbroddi og stuðla að jákvæðum breytingum á okkar vettvangi. Við eigum að þróast og þroskast með samfélaginu. Fylgjast með samtímanum og rampa okkur upp til að opna dyr íþróttafélaga fyrir sem flesta.

Okkur er kennt í sögubókum að þau sem standa eftir með lokuð augu sjá ekki sólina rísa og verða að steinum eins og tröllin í þjóðsögunum.

Við megum ekki verða steinrunnin. Þvert á móti þurfum við að breytast í takt við tíðarandann.

Fyrir þinginu liggur tillaga vinnuhóps ÍSÍ og UMFÍ um skipulag íþróttahéraða.

Íþróttahéruðin eru nú 25 talsins. Skipulag þeirra og fyrirkomulag hefur verið óbreytt um áratugaskeið en starfsemi héraðanna hefur þróast hvert með sínum hætti.

Starfshópur ÍSÍ og UMFÍ hefur sammælst um niðurstöðu sem felur í sér styrkingu íþróttahéraða um allt land og sameiginlega skiptingu fjármagns frá ÍSÍ og UMFÍ til íþróttahéraða. Sambærilegar tillögur verða lagðar fram á þingi UMFÍ í haust. Tillagan grundavallast meðal annars á því að fá ríkið með okkur í lið til að efla starf héraðanna. Ekki liggur enn fyrir samningur vegna þess en afgreiðsla tillögunnar er að okkar mati mikilvægt skref til að unnt sé að skapa aðstæður til að ákvörðun ríkisins verði að veruleika.

Hugmyndin er að koma á fót sameiginlegum starfsstöðvum vítt og breytt um landið sem hafa það samræmda hlutverk að þjónusta íþróttahéruðin í sínu nærumhverfi.

Horft er til þess að sterkari íþróttahéruð og starfsstöðvar um allt land auki skilvirkni og viðbragðsflýti innan íþróttahreyfingarinnar. Það muni einfaldlega styrkja stefnumótandi vinnu og aðgerðir á landsvísu og stuðla þannig að farsæld barna og annarra sem nýta þjónustu hreyfingarinnar.

Framtíðarsýnin er að þetta fyrirkomulag muni skila sér í betri nýtingu á starfskröftum, stuðningur við einstaka íþróttafélög verði meiri og þar af leiðandi verði þjónusta við iðkendur enn betri.

Þetta er nálgun sem á að bæta samfélagið. Því verðum við að taka samtalið og vega og meta hvort það skref sem lagt er til sé í raun ekki betra en það fyrirkomulag sem er við lýði í dag. Það er sá samanburður sem þarf að horfa til og höfum í huga að það að taka ekki ákvörðun er í raun ákvörðun um óbreytta stöðu.

Við Íslendingar erum geysilega sterk þegar við snúum bökum saman og við sem íþróttahreyfing erum einnig sterkari þegar við vinnum saman.

Ég skora því á ykkur að nýta tækifærið og með samvinnu, að koma enn öflugri út af þessu þingi sem kraftmikil heild með gleðina og hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.

Það er því vel við hæfi hér að minnast orða Hafsteins Þorvaldssonar, formanns UMFÍ í áratug og drifkrafts ungmennafélagshreyfingarinnar um langt skeið. Á lokaári sínu sem formaður UMFÍ hvatti hann ungmennafélaga og forystufólk í íþróttahreyfingunni til dáða með eftirfarandi orðum í Skinfaxa árið 1979. Þessi orð Hafsteins eiga jafn vel við þá og nú:

„Það er heitasta ósk mín til samtakanna nú, að þau megi ævinlega njóta slíkrar viðurkenningar að til forystu í samtökunum veljist sannir vökumenn … sem eru opnir fyrir nýjungum í starfi, þá munu allir félagsmenn una glaðir við sitt og ganga ótrauðir til starfa…“

Kæru vinir.

Fögnum áskorunum og verum opin fyrir nýjungum í starfinu. Það er íþróttalífinu og félögunum til heilla.

Ég flyt ykkur kveðju stjórnar og starfsfólks Ungmennafélags Íslands, óska Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands velfarnaðar, þakka starfsmönnum og sjálfboðaliðum fyrir óeigingjarnt starf, og óska ykkur góðs gengis á þinginu.

Það er okkur öllum og samfélaginu til góða.

 

Íslandi allt