Fara á efnissvæði
30. júlí 2022

Jóhann Steinar: Íþróttir auka lífsgæði fólks

„Unglingalandsmótið er liður í því að beina kastljósinu að góðum og heilbrigðum lífsstíl. Það er mjög í anda þeirra skilaboða, sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur gefið,‟ segir Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ.

Hann hélt ávarp við setningu Unglingalandsmóts UMFÍ og ræddi þar um mikilvægi skipulagðrar hreyfingar til heilsubótar. Hann minntist jafnframt á nýlega skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar þar sem fram kemur, að óheilbrigður lífsstíll hafi leitt til þess að mjög fjölgi í hópi þess fólks í Evrópu sem þjáist af langvinnum lífsstílssjúkdómum.

„Óheilbrigður lífsstíll leiðir ekki aðeins til minni lífsgæða heldur líka til álags og kostnaðar á heilbrigðiskerfið. Við hjá UMFÍ og raunar hjá öllum íþrótta- og ungmennafélögum landsins viljum vinna gegn þessari þróun með því að bjóða uppá öflugt íþrótta- og æskulýðsstarf og leggja með því okkar af mörkum til þess að treysta grunn fyrir komandi kynslóðir að farsælu og hamingjuríku lífi. Það fáum við ekki síst út úr félagsstarfinu, iðkun íþrótta og öðru skipulögðu íþrótta- og ungmennastarfi. Við viljum hafa alla með. Fjölbreytnin og sú hugsun að opna dyrnar fyrir sem flesta til þátttöku er lykill að hamingjuríku og farsælu lífi,‟ sagði Jóhann Steinar.

 

Ávarp Jóhanns Steinars í heild sinni:

„Ævintýrin enn gerast“, segir í þekktum dægurlagatexta Ómars Ragnarssonar, og víst er um það, þá gerast ævintýrin enn. Við urðum að fresta Unglingalandsmóti UMFÍ síðastliðin tvö ár – en nú loksins í þriðja sinn getum við haldið mótið – fjölskylduhátíð sem fagnar 30 ára afmæli á þessu ári.

Framundan er fjölbreytt dagskrá þar sem börn og ungmenni reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum. Hér geta allir tekið þátt á eigin forsendum, haft gleðina að leiðarljósi og notið samverunnar með fjölskyldunni á heilbrigðan og skemmtilegan hátt. Unglingalandsmót UMFÍ eru liður í því að fylgja eftir íslenska forvarnarmódelinu. Rannsóknir hafa sýnt, að samvera með foreldrum og allt skipulagt íþróttastarf eru lykillinn að árangri í forvarnarmálum. Við sjáum það hér í dag á Unglingalandsmótinu – hér er samveran og gleðin leiðarljós.

En Unglingalandsmótið er líka liður í því að beina kastljósinu að góðum og heilbrigðum lífsstíl. Það er mjög í anda þeirra skilaboða, sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur gefið. Í nýlegri skýrslu stofnunarinnar kemur fram, að óheilbrigður lífsstíll hafi leitt til þess að mjög fjölgi í hópi þess fólks í Evrópu sem þjáist af langvinnum lífsstílssjúkdómum. Óheilbrigður lífsstíll leiði ekki aðeins til minni lífsgæða heldur líka til álags og kostnaðar á heilbrigðiskerfið. Við hjá UMFÍ og raunar hjá öllum íþrótta- og ungmennafélögum landsins viljum vinna gegn þessari þróun með því að bjóða uppá öflugt íþrótta- og æskulýðsstarf og leggja með því okkar af mörkum til þess að treysta grunn fyrir komandi kynslóðir að farsælu og hamingjuríku lífi. Það fáum við ekki síst út úr félagsstarfinu, iðkun íþrótta og öðru skipulögðu íþrótta- og ungmennastarfi.

Við viljum hafa alla með. Fjölbreytnin og sú hugsun að opna dyrnar fyrir sem flesta til þátttöku er lykill að hamingjuríku og farsælu lífi. Á Unglingalandsmótum bjóðum við upp á hefðbundnar íþróttagreinar og kynnum nýjar eða lítt þekktar greinar til leiks. Þannig stuðlum við að því að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi. Á sama tíma hvetjum við fólk til þátttöku og aukinnar hreyfingar bæði á eigin forsendum og með öðrum. Þannig helst þetta allt í hendur: aðgengi að íþróttum, fjölbreytni, tilfinning fyrir því að vera hluti af heild og bætt heilsa landsmanna. Það er samfélaginu vissulega til góða.

Ágætu gestir!

Helgin er framundan.  Við hvetjum ykkur öll til þess að taka þátt í þeim fjölmörgu viðburðum, sem hér eru í boði, og finna þannig gleðina í þátttökunni – hvert sem viðfangsefnið er. Það er hinn sanni Ungmennafélagsandi: að vera með og hjálpa öðrum að taka þátt, hafa gaman. Þegar vel tekst til verða til góðar minningar sem endast hjá mörgum langt fram á fullorðinsár. Ævintýrin gerast svo sannarlega á Unglingalandsmóti UMFÍ.

Að lokum vil ég nota tækifærið og þakka Sveitarfélaginu Árborg, starfsmönnum þess sem og sjálfboðaliðum og starfsmönnum á vegum HSK og UMFÍ fyrir einstaka eljusemi og ómetanlegt framlag til að gera þetta mót að veruleika.

 

Kæru landsmótsgestir: höldum á vit ævintýranna ...

Unglingalandsmót UMFÍ á Selfossi er sett.

 

Hér má sjá myndir frá mótinu