Jóhann Steinar: Nýjar nálganir opna dyr fólks að íþróttaiðkun
Íþróttahreyfingin þarf að ná betur þeirra einstaklinga sem af einhverjum ástæðum standa utan við skipulagt íþróttastarf. Hugmyndaauðgi, þor til að prófa nýja hluti og öðruvísi nálgun á eldri íþróttagreinar getur hjálpað til og opnað dyr fólks að íþróttafélögum svo sem flestir geti tekið þátt í íþróttum eigin forsendum, segir Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ.
Hann var með ávarp á þingi KSÍ á Ísafirði í dag og lagði hann þar áherslu á ýmis sameiginleg markmið íþróttahreyfingarinnar. Það helsta sé að ná til þeirra sem af einhverjum ástæðum standi utan við skipulagt íþróttastarf. Það sé í raun lýðheilsumál að ná til þeirra því niðurstöður kannana sýni að íþróttaiðkunin hafi jákvæð áhrif á einstaklinga.
Styrkja íþróttahéruðin
„Það er samfélagsleg ábyrgð okkar hvort sem við erum innan KSÍ, ÍSÍ, eða UMFÍ, með fötlun eða ekki með fötlun, af erlendum uppruna eða eigum foreldra sem geta rakið ættir sínar langt aftur í aldir í Íslendingabók,“ sagði Jóhann Steinar og benti á sameiginlega vinnu ÍSÍ og UMFÍ sem nú sé í gangi og miði að endurskoðun á fyrirkomulagi íþróttahéraða.
Hann benti á að íþróttahéruðin séu nú 25 og hafi verið óbreytt í áratugi. Á sama tíma hefur starfsemi þeirra þróast í ólíkar áttir. Hann hvatti til áræðis og breytinga svo íþróttahéruð, héraðssambönd og íþróttafélög geti almennt veitt betri þjónustu en áður. Það sé öllum til góða.
„Sýn okkar er að styrkja þarf íþróttahéruðin. Efla þau og skerpa á hlutverki þeirra svo þau geti veitt betri og samræmdari þjónustu um allt land með skýrari og skarpari boðleiðum. Það styrkir nærsamfélag héraðanna sjálfra og stuðlar að bættu starfsumhverfi sjálfboðaliða og starfsmanna. Það mun síðan verða til hagsbóta fyrir iðkendur og þar með íþróttalífið í landinu,“ sagði hann.
Ávarp Jóhanns Steinars í heild sinni:
Ávarp á 77. ársþingi KSÍ – Ísafirði 25. febrúar 2023
Formaður og stjórn KSÍ, ágætu gestir og þingfulltrúar.
Það er alltaf ánægjulegt að koma á þing KSÍ. Þá er sérstaklega gaman að heyra hversu mikill samhljómurinn er í ávarpi formannsins og því sem við stöndum fyrir í ungmennafélagshreyfingunni. En það er líka alltaf gott að koma aftur hingað til Ísafjarðar. Hér höfum við haldið Unglingalandsmót UMFÍ, Landsmót UMFÍ 50 plús og sambandsráðsfund, þar sem forsvarsfólk innan Ungmennafélags Íslands ræddi um stöðuna og framtíðina.
Við þurfum að halda viðburði miklu oftar úti á landi og hlúa að grasrótinni. Gefa okkur tíma til að huga að tengslunum því maður er manns gaman.
Þrátt fyrir allt tal um kapp og keppni þá höfum við í íþróttahreyfingunni sameiginlega sýn. Við viljum ná betur til allra; grasrótarinnar, iðkenda og ekki síður þeirra sem af einhverju ástæðum eru ekki með í íþróttastarfinu. Við viljum öll vinna betur saman og bæta íþróttahreyfinguna. Það er samfélagsleg ábyrgð okkar hvort sem við erum innan KSÍ, ÍSÍ, eða UMFÍ, með fötlun eða ekki með fötlun, af erlendum uppruna eða eigum foreldra sem geta rakið ættir sínar langt aftur í aldir í Íslendingabók.
Við sjáum það í Ánægjuvoginni, sem er samstarfsverkefni ÍSÍ og UMFÍ, að börnum í efstu bekkjum grunnskóla, sem stunda íþróttir í skipulögð starfi, hefur fjölgað mikið. Það er afar ánægjulegt. Á sama tíma sjáum við að miklu færri ungmenni, sem eru frá heimilum þar sem annað tungumál er talað en íslenska eða eru í hópi þeirra sem skilgreina sig kynsegin, stunda íþróttir í skipulögðu starfi. Hvað veldur? Þarna verður að grípa til aðgerða – því gögn sýna að þau börn sem stunda áhugamál sín innan skipulags regluverks líður betur.
Við sem stöndum að þessu starfi vitum að íþróttir byggja upp seiglu. Þær búa börnin undir áskoranir lífsins. Í íþróttum fá ungir iðkendur bjargráð til lífstíðar. Þau prófa nýja hluti, reyna á sig, læra að setja sér markmið og vinna í teymum, vinna undir álagi og takast á við mótlæti.
Ábyrgðin sem hvílir á félögunum er svo sannarlega mikil.
Í hnotskurn læra iðkendur íþróttafélaga að takast á við alla þá gleði og sorg sem fylgir því að vera til.
Þess vegna er það lýðheilsumál að ná til þeirra barna og ungmenna sem standa utan við skipulagt íþrótta- og tómstundastarf.
Það gerum við með öðruvísi nálgun á íþróttir og einstakar greinar, við bjóðum uppá fjölbreytni og valkosti. Við þurfum að fjölga leiðum sem opna dyr fólks að íþróttafélögunum, svo sem flestir geti komið og tekið þátt - á sínum forsendum.
KSÍ á hrós skilið fyrir að koma til móts við mismunandi þarfir iðkenda - fjölga tækifærum fólks um allt land sem hafa gaman af boltaíþróttum og opna augu þeirra fyrir íþróttinni.
Þetta var meðal annars gert með pannavöllum víða um land, Football Fitness og göngufótbolta fyrir eldri iðkendur. En heitið skiptir ekki máli ef nýbreytnin höfðar til fólks og kemur fleirum á hreyfingu.
Þetta er virkilega vel gert og við þurfum að sjá meira af hugmyndaríkum útfærslum í fleiri íþróttagreinum.
Stórhuga væntingar, samvinna og samstarf kalla á nýja hugsun bæði innan vallar sem utan, ný vinnubrögð og nýtt vinnulag. Það er ábyrgð hvers okkar að hafa auga fyrir því að allir verði með og fái verkefni við hæfi.
Lykilatriði samtímans eru fagmennska og þjónusta. Þau okkar sem ætla að líta fram á veg og draga vagninn áfram verða að tileinka sér hugrekki til að stíga inn í breyttan heim. Í heim þar sem við mótum umgjörðina og regluverkið öllum til heilla. Slíkt gerist á samkomum eins og hér.
Við hjá UMFÍ höfum lagt út í vinnu sem felur í sér að hlusta betur á grasrótina, framsækið samband sem veitir straumlínulagaða, samþætta en sveigjanlega þjónustu – og er með puttann á púlsinum.
En það krefst áræðis að vera framsækin og vinna að því að veita betri þjónustu en áður. Eitt af þeim verkefnum sem því tengist er endurskoðun á fyrirkomulagi íþróttahéraða.
Íþróttahéruðin eru nú 25 og skiptast þau í sjö íþróttabandalög og átján héraðssambönd. Skiptingin hefur verið óbreytt um áratuga skeið. Á sama tíma hefur starfsemi þeirra þróast í ólíkar áttir.
Í raun má segja að íþróttahéruðin séu jafn ólík og þau eru mörg.
Sýn okkar er að styrkja þarf íþróttahéruðin. Efla þau og skerpa á hlutverki þeirra svo þau geti veitt betri og samræmdari þjónustu um allt land með skýrari og skarpari boðleiðum.
Það styrkir nærsamfélag héraðanna sjálfra og stuðlar að bættu starfsumhverfi sjálfboðaliða og starfsmanna. Það mun síðan verða til hagsbóta fyrir iðkendur og þar með íþróttalífið í landinu.
Samtal stendur nú yfir í samvinnu UMFÍ og ÍSÍ og það verður spennandi að sjá hvaða tillögur verða lagðar fram.
Og aðeins meira um nýjungar, styttri boðleiðir, framfarir og aukna samvinnu.
Nýverið tók UMFÍ stórt skref þegar við fluttum þjónustumiðstöð okkar í Reykjavík í Íþróttamiðstöðina við Engjaveg. Þótt við séum nýflutt þá hefur nálægðin við ÍSÍ, ÍBR, UMSK og sérsamböndin nú þegar skilað sér í enn betra og meira upplýsingaflæði en við höfum áður séð. Meiri krafti og fleiri möguleikum. Samvinnan skapar tækifæri sem bætir starfið. Skrefið mun vonandi setja mark sitt á framtíðina.
Að lokum langar mig að fjalla um samstarf sem bætir íþróttahreyfinguna og lengi var beðið eftir. Samræmd viðbragðsáætlun fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf liggur nú fyrir og er aðgengileg öllum. Þar koma fram leiðbeiningar sem eiga að hjálpa til við að taka á við erfiðan og flókinn málaflokk.
Við viljum hvetja ykkur öll til að kynna ykkur viðbragðsáætlunina og nýta þau úrræði sem þar koma fram ef slík mál koma upp í starfi ykkar.
Áður en ég kveð flyt ég ykkur kveðju stjórnar og starfsfólks Ungmennafélags Íslands.
Ég óska knattspyrnuhreyfingunni velfarnaðar, þakka starfsmönnum og sjálfboðaliðum fyrir óeigingjarnt starf, og óska ykkur góðs gengis á þinginu í dag.
Munum að í stóru myndinni erum við öll í sama liðinu og viljum landi og þjóð allt hið besta.
Höldum áfram að þora og verum þær fyrirmyndir sem við viljum að íþróttahreyfingin standi fyrir.
Það er okkur öllum og samfélaginu til góða.
Takk fyrir mig.