Jón Júlíus er nýr framkvæmdastjóri UMFG
Jón Júlíus Karlsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Ungmennafélags Grindavíkur og var hann valinn úr hópi 17 umsækjenda. Jón Júlíus er 32 ára gamall og var síðustu þrjú ár framkvæmdastjóri Aftureldingar í Mosfellsbæ.
Bjarni Már Svavarsson, formaður Ungmennafélags Grindavíkur, er þess fullviss að ráðningin muni breyta miklu fyrir félagið og muni Jón Júlíus skila því að starfið verði faglegra en áður.
Jón Júlíus er Grindvíkingur. Á vef Ungmennafélags Grindavíkur er haft eftir honum að hann beri því miklar taugar til UMFG og voni að hann geti hjálpað því frábæra fólki sem hefur unnið að íþróttamálum í Grindavík undanfarin ár.
Jón Júlíus er með BA-gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og MPA-gráðu í opinberri stjórnsýslu frá sama skóla. Jón Júlíus er uppalinn í Grindavík en hefur síðustu 10 ár búið í Reykjavík. Jón Júlíus hyggst flytjast búferlum aftur til Grindavíkur þegar hann hefur störf hjá UMFG. Hann hefur áður starfað sem markaðsstjóri hjá Golfklúbbnum Oddi og einnig starfað í fjölmiðlum hjá RÚV, Stöð 2 og Víkurfréttir.
Jón Júlíus hefur störf hjá UMFG 1. júní næstkomandi.
Á myndinni, sem hér er birt með góðfúslegu leyfi formanns Ungmennafélags Grindavíkur, má sjá þá Jón Júlíus og Bjarna Má innsigla ráðninguna með handabandi.