Kappið geti því miður borið fegurðina ofurliði
„Við þekkjum í keppni að kappið getur borið fegurðina ofurliði. Mikilvægast við slíkar aðstæður er að geta litið í eigin barm, lært af aðstæðum og haldið áfram með virðingu og vinsemd fyrir hverju öðru,“ segir Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ.
Hann hélt ávarp við slit Unglingalandsmóts UMFÍ í gærkvöldi. Mótið hefur staðið yfir á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina.
Jóhann sagði í ávarpi sínu að í öllum ferðalögum geti komið upp ýmis atvik sem þurfi að bregðast við.
„Þátttaka í mótum og samfélagi setur þá kröfu á alla að taka þarf tillit til ólíkra sjónarmiða og fjölbreytni mannlífs,“ sagði hann og vonaði að eftir mótið sitji í minningabankanum skemmtilegir tímar með gömlum og nýjum vinum.
Ávarp Jóhanns í heild sinni
Kæru mótsgestir.
Við vonum að allir hafi notið þess að taka þátt í Unglingalandsmótinu hér á Sauðárkróki.
Eins og í öllum öðrum ferðalögum þá koma upp ýmis atvik sem þarf að bregðast við. Mótið að þessu sinni var haldið með nýju sniði og breyttu keppnisfyrirkomulagi. Slík breyting ein og sér hefur áhrif og þess vegna skiptir miklu máli að allir taki þátt í könnun og veiti okkur endurgjöf til þess að gera mótið enn betra til framtíðar.
Þátttaka í mótum og samfélagi setur þá kröfu á alla að taka þarf tillit til ólíkra sjónarmiða og fjölbreytni mannlífs. Mótið er byggt þannig upp að allir geti tekið þátt og prófað á sínum forsendum.
Við þekkjum í keppni að kappið getur borið fegurðina ofurliði. Mikilvægast við slíkar aðstæður er að geta litið í eigin barm, lært af aðstæðum og haldið áfram með virðingu og vinsemd fyrir hverju öðru. Lífið er nefnilega ferðalag þar sem við verðum að læra að takast á við sigra og mótlæti.
Kjörorð UMFÍ hefur löngum verið Ræktun lýðs og lands og lýsir það inntakinu á að bæta sjálfan sig og samfélagið um leið.
Fyrir okkur hjá UMFÍ er einstaklega gefandi að sjá bros á vörum þeirra sem taka þátt. Gleðin er sú uppskera sem við sækjumst eftir því þá finnum við fyrir hinum eftirsóknarverða Ungmennafélagsanda.
Með gleði og jákvæðni að leiðarljósi horfum við björt til framtíðar. Enda sjáum við framtíðar fyrirmyndir í hópi þátttakenda um helgina.
Á Unglingalandsmóti er hefð fyrir því að veita Fyrirmyndarbikarinn til þess héraðssambands eða íþróttahéraðs sem hefur sýnt fyrirmyndarframkomu innan sem utan keppni.
Nú sem áður er erfitt að gera upp á milli íþróttahéraða. Það sem stóð uppúr er samræmt yfirbragð við inngöngu á setningarhátíð, góð hegðun í keppni bæði hjá þátttakendum og stuðningsmönnum og samheldni á tjaldsvæði.
Fyrirmyndarbikarinn árið 2023 hlýtur USVS og vil ég biðja Erlu Þóreyju Ólafsdóttur framkvæmdastjóra að koma og veita bikarnum viðtöku ásamt þátttakendum úr héraðinu.
Öll ferðalög taka einhvern tíma enda og nú er komið að lokum í bili. Vonandi sitja eftir í minningarbankanum skemmtilegir tímar með gömlum og nýjum vinum.
Þau eru ófá handtökin sem liggja að baki svona móti og vil ég þakka öllum þeim sem hafa lagt sitt á vogarskálarnar. Án sveitarfélagsins, starfsmanna, styrktaraðila og ekki síst sjálfboðaliðanna væri ekki hægt að halda íþrótta- og fjölskylduhátíð sem þessa.
Ég þakka ykkur öllum fyrir samveruna, óska ykkur góðrar heimferðar og hlakka til að sjá sem flesta á Unglingalandsmótinu sem haldið verður í Borgarnesi á næsta ári.
Að því sögðu slítum við Unglingalandsmótinu á Sauðárkróki.