Fara á efnissvæði
29. apríl 2024

Karl sæmdur Gullmerki

Íþróttakempan og kennarinn Karl Lúðvíksson var sæmdur Gullmerki UMFÍ á ársþingi Ungmennasambands Skagafjarðar (UMSS) sem fram fór í félagsheimilinu Tjarnabæ á Sauðárkróki á laugardag. Karl er þekktur fyrir störf sín og er fastagestur á Landsmóti UMFÍ 50+ sem haldið er ár hvert. 

Karl, sem er kominn á áttræðisaldur, er kallaður íþróttaálfur Skagafjarðar og er hann enn að. Hann er meðal annars með tíma í Íþróttahúsinu í Varmahlið, keppir á meistaramóti öldunga í frjálsum íþróttum og kennir skyndihjálp við Farskóla Norðurlands vestra og hefur kennt hana víða annars staðar.

Á þinginu voru sömuleiðis veitt starfsmerki UMFÍ. Þau hlutu í ár Stefán Guðmundsson, sem hefur staðið í ströngu á mótum í blaki, frjálsum íþróttum og körfuknattleik; Una Aldís Sigurðardóttir, sem hefur líka haldið utan um mót í körfuknattleik og sá um blak á Landsmótinu á Sauðárkrókið árið 2018 og Unglingalandsmótum UMFÍ sem haldin voru á Króknum árin 2014 og 2023;  Þorvaldur Gröndal, sem hefur verið gjaldkeri UMSS frá árinu 2016 og setið í mótanefndum á vegum UMFÍ vegna móta á Sauðárkróki. 

Lítil breyting varð á stjórn UMSS. Að því undanskildu að Aldís Hilmarsdóttir kom í stað Jóels Þórs Árnasonar, sem fór í varastjórn UMSS. Gunnar Þór Gestsson var endurkjörinn formaður UMSS. Hann var sæmdur Gullmerki ÍSÍ fyrir störf sín innan UMFÍ og ÍSÍ, Tindastóls og UMSS. Gunnar er auk þess að vera formaður UMSS varaformaður UMFÍ. 

Thelma Knútsdóttir, framkvæmdastjóri UMSS, segir þingið hafa verið gott og farið vel. Mæting hafi verið svipuð og í fyrra. Lítið hafi legið fyrir þinginu nema að breyta lítillega orðalagi um lottógreiðslur og kjósa um inngöngu Pílukastfélags Skagafjarðar í UMSS. Pílukast hefur verið vaxandi grein í Skagafirði, iðkendur keppt töluvert í fyrra og látið að sér kveða undir merkjum Pílukastfélags Skagafjarðar, sem var stofnað í fyrra.

 

Ársskýrsla og ársreikningur UMSS