Klara: Grindvíkingar koma tvíefldir til baka
„Það er dásamlegt að hitta aðra Grindvíkinga. Ég sakna þess og það gefur manni mikið að fá þessar mínútur með þeim. Við ætlum okkur flest að fara aftur heim og byggja upp bæinn. Við komum tvíefld til baka. Ég fer heim út af fólkinu, út af samfélaginu og samheldninni,“ segir Klara Bjarnadóttir, formaður Ungmennafélags Grindavíkur (UMFG) uum stöðu iðkenda, félagsfólks og iðkenda í kjölfar jarðhræringa í og við Grindavík.
Klara segir Grindvíkinga standa saman og hjálpast að. Grindavík sé lítið bæjarfélag þar sem allir kannist við alla og samheldnin sé mikil. Hún bendir meira að segja á að þótt foreldrarnir standi í miklu skutli og keppni á milli íþróttafélaga nú um sé það þess virði.
„Við foreldrarnir hittumst oft á æfingum og leikjum. Þá spjöllum við saman og gleymum okkur í smá stund. Við nýtum líka þessar stundir til að peppa hvert annað upp,“ segir hún.
Nauðsynlegt að hittast
Klara segir mikilvægt að fólk hafi aðstöðu og geti hist til að ræða málin. Það geri Grindvíkingar á æfingum og leikjum UMFG. Klara tekur fram að auðvitað hafi stefnt í að heimaleikir myndu raskast. Öll plön hafi hins vegar staðist, því íþróttafélög hafi opnað hús sín fyrir Grindvíkingum. Hún nefnir sem dæmi leiki í Subway-deildinni í körfuknattleik, en bæði kvenna- og karlalið Grindavíkur hafa háð heimaleiki sína í Smáranum í Kópavogi.
„Það eru ómetanlegt að Breiðablik hafi tekið svona vel á móti okkur. Álftanes á einnig skilið miklar þakkir fyrir að taka svona vel á móti okkur í fótboltanum. Við höfum æft reglulega þar síðustu ár og nú æfa flestir flokkar þar og spila leiki,“ segir hún.
Saknar pirrings á gönguljósum
Rauði krossinn hefur verið með aðstöðu fyrir brottflutta Grindvíkinga á þriðju hæðinni í Tollstjórahúsinu í Reykjavík. Þar er orðin eins konar félagsmiðstöð og fólk getur sest þar niður og rætt málin. Sömuleiðis er þar stuðningsteymi, prestur, sálfræðingur og fleiri sem ræða þarf við.
Stjórn UMFG hefur sömuleiðis fengið aðstöðu þar til funda. Klara segir starfið og utanumhaldið í Tollhúsinu mjög gott og frábært að boðið sé til dæmis upp á fyrirlestra sálfræðinga fyrir foreldra um hvernig eigi að ræða við börnin þegar áföll sem þessi ríða yfir. Dagarnir eru misjafnir að sögn Klöru, sem tekur sem dæmi að einu sinni í viku þurfi hún að ná í son sinn klukkan eitt í skóla, keyra hann á æfingu í Breiðholt til að vera mættur hálf þrjú, ná í hann klukkan fjögur og skutla honum yfir til ÍR.
„Við erum vön svo góðu heima í Grindavík. Þar eru gönguljós. Mér finnst frábært eins og einn sagði um daginn: Sjitt, hvað ég sakna þess að vera pirraður þegar einhver ýtir á gönguljósin heima.“
Viðtalið við Klöru er miklu lengra og er hægt að lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Blaðið er hægt að lesa á umfi.is. Myndir í greininni tók Hulda Margrét á leik karlaliða og kvennaliða UMFG í Subway-deildinni í körfuknattleik sem fram fór í Smáranum í nóvember.
Þú getur smellt á myndina hér að neðan og lesið blaðið allt í símanum, tölvunni og hvar sem er - nú eða náð í eintak í sundlaugum, líkamsræktarstöðvum og víðar. Blaðið er í dreifingu um allt land og á leiðinni til áskrifenda.