Fara á efnissvæði
05. nóvember 2020

Knattspyrnufélagið Hörður hlaut styrk til að þýða kennsluefni á útlensku

„Við erum með erlendan þjálfara og 4-5 leikmenn m.a. frá Lettlandi og Argentínu og því gott að hafa kennsluefnið á öðrum tungumálum,“ segir Salmar Már Salmarsson, formaður aðalstjórnar Knattspyrnufélagsins Harðar á Ísafirði. Félagið vinnur að þýðingu á íslensku kennsluefni á erlenda tungu. Sótt var um styrk fyrir verkefninu í Fræðslu- og verkefnasjóð UMFÍ.

Úthlutað hefur verið úr sjóði UMFÍ og var Knattspyrnufélagið Hörður á meðal fjölda íþróttafélaga sem hlaut styrk til að bæta starfið. Þetta var í fyrsta sinn sem félagsmenn Knattspyrnufélagsins Harðar á Ísafirði sendu inn umsókn í sjóðinn.

Bragi R. Axelsson, sem situr í stjórn knattspyrnufélagsins stýrir þýðingarverkefninu. Hann hefur fengið þýðendur til að þýða kynningarefnið og æfingatöflur fyrir íþróttastarf á svæðinu sem nýtis vonandi öðrum en okkur, að sögn Salmars.

„Áherslan er lögð á að reyna að fá sem flesta inn í handboltann og önnur íþróttastörf á svæðinu, og hér á Ísafirði eru mjög margir erlendir nemar sem sækjast í Háskólasetrið hér fyrir vestan og enn fremur til þeirra sem eru ekki alveg nógu góðir í íslensku,‟ heldur hann áfram. 

„Þetta er bara nokkurnvegin á prófunarstigi og á eftir að velja einhver tvö tungumál til að byrja með. Sennilega verða þau enska og pólska. Langtímaplanið gæti svo verið að bæta fleiri tungumálum við. Hvort þetta virkar eða ekki þá er gaman að reyna þetta.‟

 

Meðupphæð úthlutað

Fræðslu- og verkefnasjóður UMFÍ úthlutaði í dag 11,9 milljónum króna til 137 verkefna sambandsaðila UMFÍ og aðildarfélaga þeirra. Aldrei áður í sögu UMFÍ hefur jafn hárri upphæð verið úthlutað úr sjóðnum.

Gríðarlega margar umsóknir bárust sjóðnum og nam heildarkostnaður þeirra rúmum 113 milljónum króna. Sótt var um öllu lægri upphæð eða upp á 43,9 milljónir króna.

 

Styrkja menntun og bæta þekkingu

Fræðslusjóðurinn var stofnaður árið 1943 til minningar um Aðalstein Sigmundsson sem var formaður UMFÍ frá árinu 1930 til 1938. Verkefnasjóðurinn var stofnaður árið 1987. Samþykkt var á 47. sambandsþingi UMFÍ á Akureyri árið 2011 að sameina þessa tvo sjóði í einn og ber hann heiti þeirra beggja. Sjóðurinn hefur þann tilgang að styrkja félags- og íþróttastarf ungmennafélagshreyfingarinnar, m.a. með því að auka menntun og þekkingu félaga innan hreyfingarinnar á íþróttagreinum, þjálfun í félagsmálum og félagsstarfi.

Sjóðnum er markaður tekjustofn, sem er 7% af lottótekjum UMFÍ. Umsóknarfrestir í sjóðinn eru tveir á ári hverju, til 1. apríl og 1. október. Fyrir hvern umsóknarfrest berast um eða yfir hundrað umsóknir sem sjóðsstjórn fer yfir.

 

Mörg góð verkefni fá styrk

Úthlutunin nú sem Knattspyrnufélagið Hörður fékk úr var sú seinni á árinu. Á fyrri úthlutun í vor voru greiddar út rétt tæplega 8,3 milljónir króna. Heildarúthlutun úr Fræðslu- og verkefnastjóði UMFÍ á þessu ári nemur því 19,8 milljónum króna og hefur hún aldrei verið hærri.

Gríðarlegu fjöldi verkefna hlaut styrk úr sjóðnum. Þar á meðal er þýðing á bæklingi um kynferðislegt ofbeldi, hestanámskeið fyrir börn og unglinga, varðveisla gamalla hluta, stjórnendaþjálfun, fjölgun yngri iðkenda, þjálfaranámskeið, færsla árskýrslu og myndefnis yfir á stafrænt form og margt, margt fleira.  

Stærsta styrkinn hlaut UMSK fyrir skólamót í blaki.