Kósý ársþing í hávaðaroki og rafmagnsleysi
Ungmennafélagsandinn var í fyrirrúmi á 85. ársþingi Ungmennasambands Úlfljóts (USÚ) sem fram fór í Hofgarði í Öræfasveit á mánudag. Rafmagnið fór af, fulltrúar frá UMFÍ og ÍSÍ komust ekki vegna hávaðaroks og kom til tals að kalla út björgunarsveitabíl til að flytja kvöldverðinn til fundargesta. Formaður USÚ komst heldur ekki en hún er á síðasta mánuði meðgöngu.
Sigurður Óskar Jónson, gjaldkeri USÚ, sem jafnframt situr í varastjórn Ungmennafélags Íslands (UMFÍ), gekk því í flest þau hlutverk sem þurfti á ársþinginu.
Sigurður flutti svo til allar ræður og tillögur á ársþinginu, kveðjur frá Ragnheiði Högnadóttur, meðstjórnanda UMFÍ, sem ætlaði að koma á þingið, og Líney Halldórsdóttur, framkvæmdastjóra ÍSÍ. Hvorugar komust vegna veðurs og anna.
Ungmennasambandið Úlfljótur er eitt 29 sambandsaðila UMFÍ. Aðildarfélög USÚ eru tíu. Þar á meðal er Ungmennaféalgið Sindri á Höfn í Hornafirði, Ungmennafélagið Máni og Skotfélag Austur-Skaftafellssýslu.
Fann á sér að eitthvað færi úrskeiðis
„Við stefndum að pappírslausu þingi. En ég hafði illan bifur og prentaði því út tillögurnar og annað efni. Þetta hefði auðvitað sloppið því rafmagnið fór af þegar við snæddum kjötsúpuna um kvöldið og kveiktum þá á kertaljósum. Rafmagnið komst svo á aftur eftir mat,“ segir Sigurður Óskar.
Hávaðarok var í Öræfunum á mánudagskvöld og fór rafmagn af í öllum Öræfum og Suðursveit líka. Spáin hljóðaði upp á strekkingsvind, vindhviður, smávægilegri snjókomu og fór vindurinn í 34 m/sek við Sandfell. Komið hafði til tals að fá Björgunarsveitina Kára til að koma kvöldmatnum til fundargesta því fara þurfti fram hjá Sandfelli með matinn. Af því varð ekki.
Sigurður segir ársþingið hafa að öðru leyti gengið vel. Það hafi verið stutt eða um klukkustund. Á þingið mættu 27 fulltrúar af 42. Breytt var lítillega út af vana fyrri þinga en íþróttaliði var veitt verðlaun í stað íþróttamanns ársins. Verðlaunin voru fyrir liðsheildina sem skilaði frábærum árangri hjá meistaraflokki karla í körfuknattleik.
Allir mæti á Landsmótið
Ýmislegt var á döfinni hjá USÚ á árinu. Þar ber hæst að geta Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður á Höfn í Hornafirði um verslunarmannahelgina árið 2019. Þá voru ungmennafélagar USÚ hvattir til að fjölmenna á Landsmótið og Landsmót UMFÍ 50+ sem haldin verða á Sauðárkróki 12.-15. júlí í sumar og á Unglingalandsmót UMFÍ í Þorlákshöfn um verslunarmannahelgina.