Fara á efnissvæði
16. janúar 2023

Kristófer hjá TBR: Gott að fara í æfingaferð á Laugarvatn

„Krökkunum fannst alveg rosalega gaman og foreldrarnir voru mjög ánægðir. Við höfum ekki farið í svona ferðir í langan tíma. En núna ætla ég að mæla með að gera þetta aftur,“ segir Kristófer Darri Finnsson, þjálfari og fararstjóri í peppferð á vegum Tennis- og badmintonfélags Reykjavíkur (TBR) til Laugarvatns um helgina. Í ferðina fóru 33 iðkendur frá 11 og upp í 15 ára aldri ásamt þremur þjálfurum og fjórum foreldrum sem komu með.

TBR er eitt af 79 aðildarfélögum Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR), sem varð sambandsaðili UMFÍ árið 2019 ásamt tveimur öðrum íþróttabandalögum.

 

Gaman að fara í peppferðir

Hópurinn lagði af stað frá Reykjavík fyrir hádegi á laugardag, kom um hádegið á Laugarvatn og gisti í húsnæði Ungmennabúða UMFÍ. Æfingar fóru fram í íþróttahúsinu á Laugarvatni, sem er spottakorn frá húsnæði Ungmennabúðanna. Um kvöldið var horft á leik Íslands og Ungverjalands í HM í handbolta og síðan boðið upp á samveru í stutta stund.

„Annars voru bara allir að leika sér og hafa gaman af því að vera á Laugarvatni,“ heldur Kristófer áfram. Hópurinn æfði aftur í íþróttahúsinu á sunnudag og lagði af stað til baka um fjögurleytið.

Kristófer hefur æft hjá TBR og spilað fyrir félagið síðan í æsku og segir það hafa tíðkast áður fyrr að fara í svona ferðir. Þær hafi fjarað út fyrir utan mót utan höfuðborgarsvæðisins.

„Mér fannst sjálfum alltaf gaman í þessum ferðum. Krakkarnir hafa líka mjög gott af þeim. Þær þjappa iðkendum saman og gefa krökkunum tækifæri til að spila í öðrum íþróttahúsum,“ segir hann.

Þetta var fyrsta skiptið sem hópur á vegum TBR dvelur í húsnæði Ungmennabúðanna á Laugarvatni og nýtir sér aðstöðuna í íþróttahúsinu.  

 

Flott aðstaða fyrir hópa á Laugarvatni

Fjöldi íþróttahópa, félagasamtaka og fyrirtækja með ýmsa starfsemi hefur leigt húsnæði Ungmennabúðanna bæði yfir sumartímann og um helgar þegar skólahópar eru ekki á svæðinu. Það er opið og aðgengilegt öllum sem vilja og hentugt til að hrista hópa saman, til funda eða annarra viðburða. Tilvalin hugmynd fyrir stjórnendur í íþróttahreyfingunni og þjálfara sem vilja breyta um umhverfi fyrir iðkendur sína.

Hægt er að fá aðgang að íþróttahúsi og sundlaug en heilsulindin Laugarvatn Fontana er í göngufæri.

Sigurður Guðmundsson er forstöðumaður Ungmennabúða UMFÍ og Skólabúðanna á Reykjum í Hrútafirði. Þeir sem eru að leita sér að skemmtilegri aðstöðu fyrir fund eða viðburð til að þétta hópinn geta haft samband við hann í síma 771 9970 eða sent honum skeyti á netfangið siggi@umfi.is.

 

Myndirnar sem hér fylgja með eru birtar með góðfúslegu leyfi TBR

Fleiri myndir úr ferðinni má sjá á Facebook-síðu TBR