Fara á efnissvæði
13. september 2024

Kveikjum á friðarkerti

UMFÍ hvetur stjórnendur, starfsfólk og iðkendur hjá íþrótta- og ungmennafélögum til að kveikja á friðarkerti í dag og minnast Bryndísar Klöru Birgisdóttur, sem lést af völdum hnífaárásar á Menningarnótt. Útför hennar er í dag.

Allar stærstu matvöruverslanir landsins selja sérstakt friðarkerti í tilefni dagsins og rennur allur ágóði af sölu þess óskiptur í Minningarsjóð Bryndísar Klöru. 

Anna Björt Sigurðardóttir, sem hvatti upphaflega til þessa, sagði í samtali við visir.is á dögunum að með framtakinu vilji hún aðstoða fólk við að finna tilfinningum sínum farveg og vekja samfélagið til umhugsunar um þá alvarlegu stöðu sem það stendur frammi fyrir vegna algengi hnífaburðar og auknu ofbeldi meðal ungs fólks.

Kertin eru til sölu í Krónunni, Nettó, Bónus, Hagkaup og Kjörbúðinni. Anna Björt sagði fólk að sjálfsögðu geta kveikt á sínu eigin kerti og lagt sjóðnum lið með öðrum hætti.

Tilgangur Minningarsjóðs Bryndísar Klöru er að styðja við verkefni sem miða að því að vernda börn gegn ofbeldi og efla samfélagið þar sem samkennd og samvinna eru í forgrunni. Hægt er að millifæra beint inn á reikning minningarsjóðsins, 0515 - 14 - 171717, kennitala 430924 - 0600.

Kveiktuð þið á kerti?