Fara á efnissvæði
06. júní 2024

Líf og fjör á landsmóti í Vogum

Þá er runninn upp fyrsti dagur Landsmóts UMFÍ 50+ sem fram fer í Vogum á Vatnsleysustund um helgina. Nóg verður um að vera í bænum um helgina, boðið upp á keppni í meira en 20 íþróttagreinum fyrir 18 ára og eldri og heljarinnar fjör fyrir 50 ára og eldri.

Dagurinn hófst með keppni í boccia, sem er alltaf æði fjölmenn grein. Tæplega 30 lið eru skráð til keppni í boccia og varð að skipta henni upp í tvo daga. Í dag var fyrri dagurinn. Keppt verður aftur á morgun og síðan til úrslita um miðjan dag. 

Keppendur á mótinu flykktust til Voga í dag þrátt fyrir svolítið vindasamt veður. Einbeitingin og gleðin skein líka úr augum allra enda fátt skemmtilegra en að keppa á landsmóti í góðra vina hópi.

 

Á morgun verður keppt í eftirfarandi greinum fyrir 50+: Boccía, ringó, Strandarhlaup Blue og línudansi.

Allir sem vilja geta keppt og prófað petanque, sem er stórskemmtileg grein þar sem spilað er  úti með stálkúlum. Strandarhlaup Blue er opið fyrir alla. Keppt er í tveimur aldursflokkum. Yngri en 50 ára og eldri en 50 ára. Boðið er upp á tvær vegalengdir, 5 km hlaup og 10 km.

Landsmótið verður sett í íþróttahúsinu í Vogum síðdegis á föstudag klukkan 18:30. Eftir setninguna verður keppt í línudansi. Að þeirri keppni lokinni verða tvennir heimatónleikar og danssmiðja fyrir alla þátttakendur. 

Dagskráin heldur áfram af fullum krafti alla helgina fram á sunnudag. 

 

Greinar fyrir alla: Strandarhlaup - Danssmiðja - Kasína - Grasblak - Göngufótbolti - Pokavarp - Brennibolti - Frisbígolf inni - Keila - Heimatónleikar - Matar- og skemmtikvöld.

Greinar fyrir 50+: Boccia - Borðtennis - Bridge - Frisbígolf - Frjálsar íþróttir - Golf - Pútt - Pílukast - Pönnukökubakstur - Ringó - Stígvélakast - Sund. 

 

Myndir frá boccia má sjá í albúmi á Facebook-síðu UMFÍ og á Flickr. Öllum er frjálst að deila myndum af mótinu. Ef mögulegt er væri gaman að geta sagt hvar myndin var tekin og af síðu umfi.is.

Skoða myndir á Facebook

Skoða myndir á Flickr