Fara á efnissvæði
05. ágúst 2023

Lífið er ferðalag


„Við vitum öll hversu einfalt það er að setja undir sig haus, bölva roki og rigningu, leggjast svo bara upp í sófa og smella á næsta þátt á Netflix eða hanga í tölvunni. En slen er ekkert til að stæra sig af. Það er mun mikilvægara að finna gleðina í hreyfingu og samveru,“ segir Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ. 

Hann setti Unglingalandsmót UMFÍ á Sauðárkróki með formlegum hætti í gær. 

Þær Unnur María gunnarsdóttir og Bríet Bergdís Stefánsdóttir voru kyndilberar og Markús Máni Gröndal flutti ávarp fyrir hönd keppenda.

Í setningarávarpi sínu talaði Jóhann m.a. um mikilvægi þess að ná réttu hugarfari fyrir allt það sem lífið hefur upp á að bjóða. 

„Lífið er ferðalag sem við tökum öll þátt í. Það skiptast á skin og skúrir í öllu sem við gerum. Aðalatriðið er að halda áfram sama á hverju bjátar,“ sagði hann í ávarpi sínu. Markmið UMFÍ með Unglingalandsmótinu og öðrum viðburðum, að hans sögn, er einmitt að stuðla að því að fólk geti notið ferðalagsins og fundið gleðina í lífinu.

Unglingalandsmót UMFÍ er vel sótt á Sauðárkróki og stendur það yfir alla verslunarmannahelgina. Við mótssetninguna sýndi landsliðshópur fimleikafólks listir sínar auk þess sem fótboltasnillingurinn Andrew Henderson, sló í gegn þegar hann sýndi fótafimi sína í Freestyle Football. Andrew er með nokkrar vinnubúðir á Unglingalandsmótinu og geta mótsgestir lært það sem og hann hefur kennt kempum á borð við Neymar, Ronaldo og mörgum fleirum stórstjörnum. 

Ávarp Jóhanns í heild sinni:

Kæru mótsgestir.

Velkomin á Unglingalandsmót UMFÍ.
Það er einstaklega gaman að sjá ykkur hér á Sauðárkróki þar sem stefnan er að hafa gaman í góðra vina hópi.

Unglingalandsmótin eru ein af mörgum perlum UMFÍ sem endurspegla kjarna hreyfingarinnar. Þar skín í gegn árangurinn af þrotlausu starfinu. Hér njótum við þess að taka þátt í íþróttum, leikjum og öðrum viðburðum. Þátttaka í íþróttum er nefnilega ekki bara keppni. Í íþróttum njótum við þess líka að vera til.

Við vitum öll hversu einfalt það er að setja undir sig haus, bölva roki og rigningu, leggjast svo bara upp í sófa og smella á næsta þátt á Netflix eða hanga í tölvunni. En slen er ekkert til að stæra sig af. Það er mun mikilvægara að finna gleðina í hreyfingu og samveru. Þá verður allt svo miklu einfaldara og léttara. Og það sem meira er:

Hreyfingin gerir lífið betra!

Við hjá UMFÍ einsetjum okkur að finna gleðina í lífinu og þegar það gengur upp þá finnum við hinn einstaka Ungmennafélagsanda.

Von okkar er að sá ljúfi andi losni úr læðingi í öllum okkar verkum. Ég veit það fyrir víst að búið er að leggja grunninn að því í hverju einasta handtaki sem lagt hefur verið fram í aðdraganda þessa móts. Uppskeran ætti því að verða hin mesta skemmtun.

Samhliða því að hampa gleðinni í öllum verkum reynum við í ungmennafélagshreyfingunni að vera ætið á tánum, fylgja straumi tímans og setja markmið um það sem betur má fara. Gögn sem íþróttahreyfingin og Embætti landlæknis hafa safnað í gegnum árin sýna að margt má betur fara í samfélaginu. Ungmenni sofa orðið minna, kvíði eykst, sjálfsmynd ungs fólk er verri, þau lesa síður og virðast mörg með heimilisfesti í farsímanum.

Þá eru einnig teikn á lofti um að sá góði og eftirtektarverði árangur sem náðst hefur í því að draga úr tóbaksreykingum og unglingadrykkju, og tekið hefur verið eftir um allan heim, sé vígi sem einnig er farið að láta á sjá í baráttunni.

Í því sambandi er sérstaklega horft til þess að uggvænlegur vöxtur er í notkun nikótínpúða og veipa í röðum ungmenna.

Slík óheillaþróun getur skilað skelfilega hröðum dóminóáhrifum. Þess vegna teljum við hjá UMFÍ mikilvægt að koma inná þessi mál án þess að nöldra eða verða einhverjir leiðindapúkar. Í okkar huga snýst þetta um heilbrigt val þar sem við sköpum frekar jákvæða og uppbyggilega framtíð með lýðheilsu og gleði í forgrunni.
Hver vill ekki hafa slíka framtíðarsýn og verða fyrirmynd á þeim forsendum - samfélaginu til heilla? Ég er sannfærður um að í þessum hópi þátttakenda á Unglingalandsmótinu séu slíkar fyrirmyndir sem við munum síðar sjá meira af.

Og talandi um fyrirmyndir.

Pavel Ermolinskij, einn af okkar bestu íþróttamönnum og þjálfari meistaraflokks karla í körfu hér á Sauðárkróki, hefur náð framúrskarandi árangri með liðið á afar skömmum tíma. Í viðtölum vísaði hann til þess að hluti af ferðalaginu að Íslandsmeistaratitlinum fólst í því að takast á við mótlæti og undirbúa sig fyrir næstu leiki, m.a. með því að ná réttu hugarfari.

Þetta er lífið í hnotskurn.

Lífið er ferðalag sem við tökum öll þátt í. Það skiptast á skin og skúrir í öllu sem við gerum. Aðalatriðið er að halda áfram sama á hverju bjátar.

Markmið UMFÍ með Unglingalandsmótinu og öðrum viðburðum er einmitt að stuðla að því að fólk geti notið ferðalagsins og fundið gleðina í lífinu.

Ég vil nota tækifærið og þakka sveitarfélaginu Skagafirði, starfsmönnum þess, sjálfboðaliðum og starfsmönnum á vegum UMSS og UMFÍ fyrir mikla eljusemi og ómetanlegt framlag til að gera þetta mót að veruleika - samfélaginu til góða.

Kæru landsmótsgestir: Höldum nú á vit ferðalagsins með leikjum og gleði.

Unglingalandsmót UMFÍ á Sauðárkróki er sett.

 

Hér má sjá myndir frá setningu Unglingalandsmótsins