Lilja fundaði með starfshópi um rafíþróttir
„Það er að sjálfsögðu ýmislegt sem við þurfum að tala okkur í gegnum. En heilt yfir er framtíð rafíþrótta björt á Íslandi,“ segir Ólafur Hrafn Steinarsson, formaður starfshóps um rafíþróttir / rafleiki. Hann er jafnframt stofnandi Rafíþróttaskólans og stjórnarformaður Rafíþróttasamtaka Íslands. UMFÍ á tvo fulltrúa í starfshópnum, sem vinnur að stefnumótum um rafíþróttirnar með það að markmiði að efla umgjörðina um rafíþróttir/rafleiki.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sat fund hópsins sem fram fór í þjónustumiðstöð UMFÍ í morgun. Þar ræddi hún um áherslur hópsins, mikilvægi þess að ná til allra barna í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi og svara breyttum þörfum samtímans þegar kemur að skipulögðu starfi. Upp úr því fóru fram líflegar og góðar umræður.
Það var Lilja Alfreðsdóttir sem skipaði starfshópinn í honum sitja auk Ólafs þau Valgerður Þórunn Bjarnadóttir frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Victor Berg Guðmundss frá Samfés, Ragnheiður Sigurðardóttir frá UMFÍ og Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir sem kemur frá ÍSÍ.
Varamenn eru þau Melína Kolka Guðmundsdóttir, tilnefnd af Rafþróttasamtökum Íslands, Sonja Nikulásdóttir frá Samfés, Vilhelm Patrick Bernhöft, sem tilnefndur var fyrir hönd UMFÍ, Viðar Garðarsson sem situr í starfshópnum fyrir hönd ÍSÍ, og Örvar Ólafsson, sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu.