Fara á efnissvæði
12. apríl 2019

Lilja hvetur ungt fólk til að taka þátt í félagsstarfi

„Ég er talskona þess að ungt fólk taki þátt í félagsstarfi. Ég hef gert það frá 13 ára aldri og nú á vettvangi stjórnmálanna,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. Hún var í pallborði á ungmennaráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði sem fram fór í Borgarnesi í vikulokin.

Í pallborði voru auk Lilju, þau Soffía Ámundadóttir, formaður íþróttanefndar ríkisins, Guðmundur Ari Sigurjónsson, sem situr í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, Sigurður Guðmundsson, framkvæmdastjóri UMSB, Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, verkefnastjóri verkefnisins Sjúk ást, og Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ.

Ungmennaráð UMFÍ hefur staðið fyrir og skipulagt ráðstefnuna á hverju ári frá því árið 2009. Ráðstefnan Ungt fólk og lýðræði er hugsuð fyrir 16-25 ára þátttakendur.

 

UMFÍ veitir ungu fólki tækifæri

Í aðdraganda pallborðsins unnu ráðstefnugestir saman í nokkrum litlum hópum, söfnuðu spurningum saman í pott og völdu þær sem varpað var fram fyrir þá sem sátu fyrir svörum í pallborðsumræðunum. Spurningarnar voru af ýmsum toga, svo sem um menntamál, umhverfismál og félagsmál með áherslu á ungt fólk.

Lilja sagðist hafa byrjað snemma í félagsstörfum og hvatti þátttakendur ráðstefnunnar að taka þátt í þeim. Sjálf hafi hún verið virk í félagsstörfum frá því í grunnskóla, verið formaður nemendafélags Fellaskóla og látið til sín taka í baráttunni gegn kjarnavopnum á leiðtogafundi þeirra Ronalds Reagans, forseta Bandaríkjanna, og Mikhaíls Gorbatsjevs, leiðtoga Sovétríkjanna, í Höfða árið 1986.

„Það að hafa byrjað í félagsstörfum ung hefur hjálpað mér gríðarlega. Það skiptir líka máli að hafa ástríðu fyrir því sem maður gerir. Ég hvet ykkur eindregið til að taka þátt í félagstörfum, skrifa niður það sem þið eruð að hugsa og finna vettvang til að setja mál á dagskrá,“ sagði hún.

Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, sagði ráðstefnu eins og Ungt fólk og lýðræði dæmi um góðan vettvang fyrir ungt fólk. Á ráðstefnu Ungmennaráðs UMFÍ fái þátttakendur tækifæri til að bera ábyrgð og geti komið skoðun sinni á framfæri. Hún benti auk þess á að forsvarsfólk í ungmennafélagshreyfingunni hafi verið hvatt til þess að bjóða fulltrúum ungs fólks á viðburði og þing UMFÍ. Það sé í samræmi við stefnu UMFÍ að allir séu með.

 

Hér má sjá upptöku frá öllu pallborðinu á ungmennaráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði: Sjá pallborðið

Fleiri myndir frá ungmennaráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði. Fleiri myndir koma síðar.