Fara á efnissvæði
08. nóvember 2023

Lilja Ósk hlaut hvatningarverðlaun á Degi gegn einelti

„Það er þægilegra að vera í umhverfi sem er öruggt, þar sem hægt er að segja frá líðan sinni,“ segir Lilja Ósk Magnúsdóttir, verkefnastjóri forvarna- og félagsmála í Tækniskólanum, en hún hlaut í dag hin árlegu hvatningarverðlaun fyrir störf í þágu eineltisforvarna í skólanum og í þágu hinsegin nemenda á Degi gegn einelti. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, afhentu Lilju verðlaunin við hátíðlega athöfn í Hólabrekkuskóla í dag. 

Í dag er Dagur gegn einelti og er hann haldinn hátíðlegur víða. 

Það eru samtökin Heimili og skóli sem veita verðalunin fyrir baráttu gegn einelti. Lilja Ósk viðurkenndi að sér hafi ekki liðiði vel í skóla. Þótt hún sé íþróttamanneskja í hjarta sínu þá glími hún við hreyfihömlun frá því í æsku sem valdi því að vegna veikra vöðva þá geti hún ekki gert það sama og aðrir. Lilju var strítt fyrir ýmislegt og hataði hún bæði frímínútur og leikfimi. 

„Ég  bjó til ákveðnar varnir, brást í grát eða dró mig í  hlé til að verða ekki þátttakandi í neinu, því þá gæfi ég einhverjum færi á að stríða mér,“ sagði hún og bætti við að nú sé það sitt aðalstarf að búa til þetta örugga umhverfi fyrir meðal annars hinsegin nemendur í Tækniskólanum. Það geri hún ekki ein heldur með starfsfólki skólans. 

 

Allir dagar gegn einelti

Guðni hélt stutt ávarp í tilefni dagsins og vitnaði þar til bókanna um Jón Odd og Jón Bjarna og ræddi sérstaklega um Selmu, systur Lárusar, vinar þeirra bræðra. Sú var með Downs-heilkenni og varð af þeim sökum fórnarlamb stríðni. Í einni af bókunum er sagt frá óeirðum sem urðu til upp úr því þegar bræðurnir og Lárus reyndu að vinna á krökkunum sem stríddu Selmu. Foreldrar þeirra skárust í leikinn til að stilla til friðar og Soffía frænka líka og allt fór í bál og brand. 

Guðni benti á að lykilsetning í bókinni sé höfð eftir Jóni Oddi þar sem hann gagnrýndi móður eins þeirra sem stríddu Selmu:

„Hún á að fræða börnin sín betur. Þá myndi hann þekkja Selmu. Við fullorðnu berum ábyrgð, við eigum að fræða börn og ungmenni hvernig á að koma fram við annað fólk. Það verður enginn stærri af því að gera aðra minni. Við eigum frekar að hjálpast að. Ég dáist að þeim krökkum sem standa upp til varnar þeim sem minna mega sín, eru kannski aðeins í þeim sporum að þurfa á smá aðstoð að halda. Þess vegna er þessi dagur svo mikilvægur. Við skulum vera sammála um það að allir dagar eigi að vera Dagur gegn einelti.“

 

Viðbragðsáætlunin

Í tilefni af Deginum gegn einelti er gott tilefni til að minna á viðbragðsáætlun samskiptaráðgjafa í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Einelti, áreitni og ofbeldi í öllum þeim myndum sem það getur birst er ekki liðið innan íþrótta- eða æskulýðsstarfs. Markmiðið með starfsemi Samskiptaráðgjafa er að stuðla að því að íþrótta- og æskulýðsstarf fari fram í öruggu umhverfi og að börn, unglingar og fullorðnir, óháð kynferði eða stöðu að öðru leyti, geti stundað íþróttir eða æskulýðsstarf og leitað sér aðstoðar eða leitað réttar síns vegna atvika og misgerða sem eiga sér stað án þess að þurfa að óttast afleiðingarnar.

Í viðbragðsáætluninni eru leiðir fyrir einstaklinga og íþróttafélög um það hvernig bregðast á við þegar slík mál koma upp.

Viðbragðsáætlunin er unnin í samráði við Bandalag íslenskra skáta, Íþróttabandalag Reykjavíkur, Íþrótta- og ólympíusamband Íslands, KFUM og KFUK, Samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs, Slysavarnafélagið landsbjörg, Ungmennafélag Íslands og Æskulýðsvettvanginn. 

 

Þú getur lesið Viðbragðsáætlunina hér