Ljómandi fínn fulltrúaráðsfundur ÍBH
„Fundurinn tókst ljómandi vel og við vorum mjög ánægð,“ segir Elísabet Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Hafnarfjarðar (ÍBH) um fulltrúaráðsfund bandalagsins sem haldinn var í október. Fundurinn var í samkomusal Ásvalla hjá knattspyrnufélaginu Haukum og mættu 35 fulltrúar aðildafélaga.
Þetta er eini formannafundur ÍBH á árinu. Oft eru þeir tveir en ákveðið var að fækka þeim um einn á árinu vegna ferðar Hafnfirðinga til Danmerkur í vor.
Á dagskrá fundarins voru nokkrir fyrirlestrar og kynningar. Hrafnkell Marinósson, formaður ÍBH, var fundarstjóri. Fulltrúar íþróttafélaga í Hafnarfirði sögðu frá starfi félaganna og helstu áskorunum. Sveinn Samspsted og Íris Svavarsdóttir, starfsmenn svæðisstöðva íþróttahéraðanna á höfuðborgarsvæðinu, sögðu frá greiningarvinnu starfsmannanna fyrir starfssvæðið og verkefnunum framundan. Stella Björg Kristinsdóttir, fagstjóri forvarna- og frístundastarfs hjá Hafnarfjarðarbæ, flutti fyrirlestur um vímuefnanotkun ungmenna í Hafnarfirði auk þess að ræða um frístundastyrki, notkun rafretta í bænum, nikótínpúða og orkudrykkjanotkun. Að lokum var Díana Guðjónsdóttir, íþróttafræðingur og kennari við Flensborgarskóla, með erindi um afrekssvið skólans, sem er það elsta í skólakerfinu en það var sett á laggirnar árið 2006. Nemendur þar eru nú 254 talsins.