Fara á efnissvæði
05. desember 2024

Marcel Knop: Alltaf opinn fyrir því að aðstoða

Marcel Knop starfar sem stuðningsfulltrúi í Grunnskóla Ísafjarðar ásamt því að þjálfa fótbolta. Helstu áhugamál hans eru fótbolti, matreiðsla og heimspeki. Hann hefur verið öflugur sjálfboðaliði hjá Héraðssambandi Vestfirðinga (HSV), aðallega hjá tveimur íþróttafélögum á svæðinu, Vestra og Herði.

Sjálfboðaliðar gegna lykilhlutverki í íþróttahreyfingunni hér á landi.

Sjálfboðaliðar vinna óeigingjarnt starf í þágu samfélagsins. Framlag þeirra er ómetanlegt en því miður oft og tíðum ekki metið að verðleikum. En hvað er það sem knýr sjálfboðaliða áfram að gefa af sér án þess að ætlast til þess að fá neitt í staðinn?

Við tókum á tal harðduglega sjálfboðaliða vítt og breytt um landið og fengum innsýn inn í þeirra starf. Hér fáum við að heyra reynslu þeirra af sjálfboðaliðastarfi og hver hvati þeirra er til að halda áfram að sinna starfi sínu sem sjálfboðaliðar. 

 

Takk sjálfboðaliðar!

Hvernig sjálfboðaliðastarfi sinnir þú helst? 
„Ég er alltaf opinn fyrir því að aðstoða þegar það vantar sjálfboðaliða svo störfin eru fjölbreytt. Það fyrsta sem mér dettur í hug er þegar ég safnaði saman fólki fyrr á þessu ári og við bjuggum til trommusveit fyrir knattspyrnufélagið Vestra. Við náðum ágætis árangri í því í lok sumars. Samhliða því fór fram smá fjáröflun, á tveimur vikum náði ég að safna 60-70 þúsund krónum með dósasölu. Þetta hefði aldrei verið hægt án stuðnings allra fyrirtækja á svæðinu. Með þessu var hægt að kaupa nýjar trommur og annað dót eins og hár- og andlitsmálningu sem krökkunum þótti æði. Við ætlum að halda áfram með trommusveitina næsta sumar og stefnum á að taka þetta þá á næsta stig.“

Hvers vegna ákvaðst þú að gerast sjálfboðaliði? 
„Það er mjög einfalt, mér fannst það svo skemmtilegt. Ég hef alltaf verið með mikla orku sem þýðir að ég var úti um allt og alls staðar, svo þegar ég kynntist sjálfboðaliðastarfi þá gat ég notað orkuna mína í það.“

Hvað er það sem drífur þig áfram sem sjálfboðaliði? 
„Það sem drífur mig helst áfram er fólkið. Allt skemmtilega fólkið í kringum þessi störf láta mann langa til þess að halda áfram. Sjálfboðaliðastarf er oft unnið með eitthvað stórt í huga og við það verður til svo mikil gleði. Einnig er sjálfboðaliðastarf oft unnið með eða fyrir krakka sem veitir þeim svo mikla gleði sem er líka drífandi.“

Getur þú lýst eftirminnilegri upplifun sem sjálfboðaliði? 
„Ég á enga ofurstóra upplifun, mínar eru litlar en það eru þær sem skipta mestu máli. Að sjá að starf mitt er að gleðja aðra, sérstaklega börn, er alltaf frábært, en það er líka bara gaman þegar það er fólk í bænum sem maður þekkir ekki mikið sem hrósar manni, það hvetur mann mikið.“

Hverjar eru áskoranir í starfi sjálfboðaliða? 
„Númer 1, 2 og 3 er að byrja. Það erfiðasta í sjálfboðaliðastörfum er að byrja, koma sér inn í störfin eða jafnvel byrja á nýjum skemmtilegum verkefnum. Fólk heldur oft að það hafi ekki nægan tíma í þetta en öll hjálp skiptir máli, þó svo hún sé lítil.“

Hver er ávinningur þess að vera sjálfboðaliði? 
„Hér get ég nefnt rosa margt, með sjálfboðaliðastarfi verða til geggjaðar minningar sem maður losnar ekki við alla ævi ásamt því að maður kynnist mjög skemmtilegu og fjölbreyttu fólki. Sjálfboðaliðastarf er reynsla sem mun á einhvern hátt nýtast manni í lífinu. Í stuttu máli er ávinningur sjálfboðaliðastarfs hversu skemmtilegt það er.“

Hver eru þín helstu skilaboð til þeirra sem hafa áhuga á að sinna sjálfboðaliðastarfi? 
„Taktu fyrsta skrefið, það er erfiðast en ég lofa að það verður miklu auðveldara eftir það. Sjálfboðaliðar leggja oft hjarta sitt í starfið og ég veit að allir geta gert það, sérstaklega þegar maður tengist einhverju sem maður elskar.“

Þín ráð til annarra félaga til þess að fjölga sjálfboðaliðum? 
„Hvert og eitt okkar skiptir máli. Á bak við hvert frábært afrek er fólk eins og þú og ég, sem vinna saman að því að láta hlutina gerast. Þetta væri ekki mögulegt án okkar vinnu, svo við skulum aldrei vanmeta þann kraft sem við höfum til að hvetja aðra til að taka fyrstu skrefin.“