Fara á efnissvæði
17. apríl 2024

María sæmd gullmerki UMFÍ

María Alma Valdimarsdóttir var sæmd gullmerki UMFÍ á 83. héraðsþingi Héraðssambands Snæfellsness og Hnappdalssýslu (HSH) sem haldið var 11. apríl síðastliðinn í Lýsuhóli. Mæja, eins og hún er gjarnan kölluð, kemur frá Ungmennafélaginu Snæfelli og hefur verið þar í stjórn frá árinu 1994, bæði sem ritari og gjaldkeri. Hún hefur í gegnum tíðina gengið í öll verk fyrir íþróttahreyfinguna hvort sem um ræðir fyrir yngri flokka starfið eða meistaraflokkana.

Þingforsetar voru Kristján Þórðarson og Ragnhildur Sigurðardóttir.

Mjög góð mæting var á þingið en á það mættu 38 þingfulltrúar af 43. Engar breytingar voru gerðar á stjórn HSH og mun hún því starfa óbreytt fram að næsta héraðsþingi HSH.

„Þingið gekk mjög vel,“ segir Gunnhildur Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri HSH.

 

Starfsmerkin

Ragnhildur Sigurðardóttir, Þóra Kristín Magnúsdóttir og Helgi Sigurmonsson hlutu starfsmerki UMFÍ á þinginu en öll koma þau frá Umf. Staðarsveit.

Hjónin Þóra Kristín og Helgi úr Staðarsveit hafa bæði í gegnum árin verið boðin og búin að bjóða fram aðstoð sína við hin ýmsu ungmennafélagsstörf, hvort heldur er við fundarstjórn eða að sinna öðrum félagsmálum. Þau hlúa vel að ungmennafélagsandanum með hvatningu, hrósi og þátttöku. 

Ragnhildur Sigurðardóttir hefur bæði setið í stjórn HSH og Umf. Staðarsveitar og verið virk í starfi.Ragnhildur hefur ávallt verið reiðubúin til aðstoðar við íþrótta- og félagsstarf á sambandssvæðinu.

Guðmunda Ólafsdóttir, var gestur þingsins fyrir hönd UMFÍ og afhenti hún gullmerkið og starfsmerkin ásamt Auði Ingu Þorsteinsdóttur, framkvæmdastjóra UMFÍ. Jafnframt ávarpaði Guðmuna þingið fyrir hönd UMFÍ.

Viðar Sigurjónsson, var fulltrúi ÍSÍ á þinginu.

Nokkuð af tillögum voru lagðar fyrir þingið sem allar voru samþykktar, þó einhverjar með lítilsháttar breytingum. Ný lög HSH voru samþykkt með breytingartillögu en verið var að uppfæra lögin sem samþykkt voru árið 2008. Einnig var samþykkt, með lítilsháttar breytingum, tillögur um arðgreiðslu og lottóuppgjör ásamt skiptingu á afkomu frá Landsmóti 50+ frá árinu 2023.

 

Myndir frá HSH