Fara á efnissvæði
05. desember 2024

Marion Worthman: Þátttaka foreldra er áskorun

Marion Worthmann er formaður Ungmennafélags Tálknafjarðar og hefur gegnt því starfi frá árinu 2009. Einnig hefur hún verið í stjórn HHF (Héraðssambands Hrafna-Flóka) í nokkur ár en var þar formaður árin 2021-2022. Helstu áhugamál Marion eru íþróttir, útivera og vinna með börnum sem og fullorðnum.

Sjálfboðaliðar gegna lykilhlutverki í íþróttahreyfingunni hér á landi.

Sjálfboðaliðar vinna óeigingjarnt starf í þágu samfélagsins. Framlag þeirra er ómetanlegt en því miður oft og tíðum ekki metið að verðleikum. En hvað er það sem knýr sjálfboðaliða áfram að gefa af sér án þess að ætlast til þess að fá neitt í staðinn?

Við tókum á tal harðduglega sjálfboðaliða vítt og breytt um landið og fengum innsýn inn í þeirra starf. Hér fáum við að heyra reynslu þeirra af sjálfboðaliðastarfi og hver hvati þeirra er til að halda áfram að sinna starfi sínu sem sjálfboðaliðar. 

 

Takk sjálfboðaliðar!

Hvers vegna ákvaðst þú að gerast sjálfboðaliði? 
„Vegna áhuga míns á íþróttum, að vinna með fólki og að gefa af mér fyrir samfélagið mitt. Að vinna með skemmtilegu fólki, gera vel fyrir samfélagið og börnin mín.“

Hvað er það sem drífur þig áfram sem sjálfboðaliði? 
„Mér finnst gefandi að starfa sem sjálfboðaliði. Ég hef meðal annars haft gaman af því að fara í keppnisferðir með krökkunum og fjölskyldum þeirra, til dæmis á Unglingalandsmót UMFÍ og á Gautaborgarleikana, en ekki síður á íþróttamót heima í héraði.“

Hverjar eru áskoranir í starfi sjálfboðaliða?
„Helstu áskoranir í mínu sjálfboðaliðastarfi hafa verið að fá foreldra til að taka þátt, til dæmis að fá þá til að starfa á íþróttamótum. Einnig að fá þjálfara til starfa í okkar litla félagi.“

Hver er ávinningur þess að vera sjálfboðaliði?
„Helsti ávinningur af mínu sjálfboðastarfi er að ég er fyrirmynd fyrir börnin mín. Þau læra hvað það er að gefa af sér fyrir samfélagið sitt og hafa þar af leiðandi haft tækifæri til að stunda íþróttir.“

Þín skilaboð til annarra sem hafa áhuga á að sinna sjálfboðaliðastarfi? 
„Sjálfboðaliðastarf er mjög gefandi og skemmtileg vinna ásamt því að vera tækifæri til að gefa af sér fyrir börn sem og fullorðna. Ég get mælt með fyrir alla að starfa sem sjálfboðaliði fyrir samfélagið sitt. Án sjálfboðaliða væri íþróttahreyfingin fátækari.“

Ertu með ráð til annarra félaga til þess að fjölga sjálfboðaliðum? 
„Mín ráð væru að hvetja til fjölbreytts starfs. Við hjá UMFT höfum verið dugleg að vera með viðburði fyrir alla fjölskylduna. Til dæmis útileiki, páskaeggjaleit, ratleiki, sundlaugarpartý og svo mætti lengi áfram telja. Alltaf er gaman að sjá alla fjölskylduna taka þátt og hjálpast að.“