Mikil ánægja með Skólabúðirnar á Reykjum
„Fólk er afar ánægt með Skólabúðirnar og ég heyri ekkert nema jákvætt um þær í sveitarfélaginu,“ segir Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra.
Hún fundaði með Auði Ingu Þorsteinsdóttur, framkvæmdastjóra UMFÍ, og Sigurði Guðmundssyni, forstöðumanni Skólabúðanna á Reykjum, um búðirnar í síðustu viku. UMFÍ tók við rekstri skólabúðanna undir lok síðasta sumars og réðst samstundis í umfangsmiklar endurbætur á húsnæðinu með starfsfólki sveitarfélagsins sem kom að þeim af fullum þunga.
Starfsfólk Skólabúðanna er af svæðinu og er allur mögulegur aðbúnaður og þjónusta keypt í sveitarfélaginu.
Nemendur fræddir um Gretti og hákarla
Skólabúðir hafa verið starfræktar að Reykjum frá árinu 1988 og kom UMFÍ að rekstri þeirra í fyrrasumar. Í Skólabúðirnar koma á fjórða þúsund nemenda 7. bekkjar úr grunnskólum landsins á hverju skólaári með kennurum og umsjónarfólki nokkra daga í senn. Í Skólabúðunum fá nemendurnir tækifæri til að efla og styrkja leiðtogahæfileika sína og sjálfsmynd og bæta félagsfærnina. Orðspor Skólabúðanna er afar gott og njóta börnin þess að dvelja í þeim.
Í Skólabúðunum er mikið lagt upp úr því að kynna nemendunum fyrir sögu Húnaþings og nærliggjandi umhverfi. Svæðið er líka fullt af sögulegum fróðleik. Nemendurnir heimsækja líka Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna og fá þar ítarlega og skemmtilegan sögulegan fróðleik um liðna tíð til sjávar og sveita, þar á meðal hákarlaveiðar og vinnslu þeirra.
Amma og afi hittust í Héraðsskólanum
Reykjaskóli á sér langa og flotta sögu. Hann var stofnaður sem héraðsskóli árið 1931 og var starfræktur sem slíkur til ársins 1988 eða í 57 ár. Helsta kennileiti Reykjaskóla er Ólafshús, sem Guðjón Samúelsson teiknaði en hann var án nokkurs vafa einn af þekktustu húsameisturum ríkisins. Húsið tengist líka sögu seinni heimsstyrjaldarinnar en breskt setulið hafði aðsetur á Reykjatanga eftir hernámið 1940 og nýtti allt húsið.
Unnur Valborg segir Reykjaskóla eiga sérstakan sess hjá mörgum fjölskyldum á svæðinu.
„Skólinn tengist svo mörgu í gegnum tíðina. Margir íbúar hér eiga góðar minningar frá dvöl sinni þar auk þess sem fólk sem nú eru afar og ömmur og pabbar og mömmur kynntust í skólanum á sínum tíma,“ rifjar hún upp og bendir á að auk þess hafi Reykjaskóli verið miðstöð íþrótta í héraðinu.
„Þetta var aðal íþróttasvæðið í sveitinni. Í minni barnæsku fórum við þangað á íþróttamót og kepptum á flottum frjálsíþróttavelli,“ heldur Unnur áfram „Íþróttasalurinn við skólann var líka nýttur til æfinga um langt skeið enda var hann eina íþróttahúsið á svæðinu til langs tíma.“
Miklar breytingar á húsnæðinu
Á Reykjum er gríðarlegt magn rúmgóðra bygginga, gisting fyrir 120 manns, matsalur, kennsluhúsnæði með stórum sal og stofum, íþróttasalur og sundlaug. Húsnæðið hefur verið nokkuð vinsælt til leigu fyrir ættarmót og ýmsa hópa.
Húsnæði Skólabúðanna hefur tekið stakkaskiptum eftir að UMFÍ og starfsfólk sveitarfélagsins sneri bökum saman um að laga það. Stöðugt er verið að breyta, laga og bæta í búðunum og eru þær orðnar hinar glæsilegustu. Búið er að skipta um húsgögn í öllum herbergjum og hlaða inn afar skemmtilegum leiktækjum í Bjarnaborg, eitt af húsunum sem mynda Reykjaskóla.
Hér má sjá fleiri myndir af kátum krökkum frá Álftanesi í Skólabúðunum á dögunum.