Mikilvægt að fylgja innsæinu og trúa á sjálfan sig, segir ráðherra
„Fólk á alltaf að treysta eigin innsæi en samt vera tilbúið til að hlusta á gagnrýni og vera tilbúinn til að skipta um skoðun. Fullorðnu fólki finnst mjög erfitt að vera það sjálft. En maður má ekki tapa gleðinni heldur vera maður sjálfur,“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, dómsmálaráðherra og ráðherra ferðamála, nýsköpunar og iðnaðar. Hún flutti ávarp við setningu ungmennaráðstefnunnar Ungt fólk og lýðræði sem sett var í Borgarnesi í morgun.
Tugir ungmenna sitja ráðstefnuna sem Ungmennaráð UMFÍ stendur að frá miðvikudegi til föstudags.
Undirskrift ráðstefnunnar í ár er „hvernig get ég verið besta útgáfan af sjálfum mér?“ Á ráðstefnuna koma saman um 80 ungmenni á aldrinum 14-25 ára sem sitja í ungmennaráðum á öllu landinu. Þau hittast á ópólitískum vettvangi og ræða saman málefni líðandi stundar.
Kolbrún Kolbrún Kjartansdóttir, formaður Ungmennaráðs UMFÍ, setti ráðstefnuna í morgun. Þar tóku til máls auk Þórdísar Gunnlaugur Júlíusson, sveitarstjóri Borgarbyggðar, og Salvör Nordal, umboðsmaður barna.
Mikilvægt að spyrja
Í ávarpi sínu vitnaði Þórdís til forngríska heimspekingsins Sókratesar sem uppi var fyrir um 3.000 árum, en hann var dæmdur til dauða fyrir að hvetja unga karlmenn til þess að hugsa á gagnrýninn hátt.
Þórdís rifjaði upp að hún hafi eitt sinn lært að hlusta á maga sinn, fylgja innsæinu og vera gagnrýninn. Á sama tíma á fólk ekki að gefa sér að allir viti betur en það sjált. Þar skiptir innsæið aftur máli.
Vill ekki vera piparkökukarl
Þórdís er sjálf brautryðjandi á mörgum sviðum. Hún er yngsti varaformaður Sjálfstæðisflokksins og yngsta konan til að gegna embætti ráðherra landsins. Hún hafi heyrt að ungt fólk eigi að bíða með að koma sér áfram og spyrja spurninga.
Hún viðurkenndi að í fyrstu hafi sér fundist eins og hún hafi átt að passa í ákveðið form, form sem hamli því að fólk hagi sér eða framkvæmi á annan hátt en gert hefur verið lengi. Það hamli framförum og gagnrýninni hugsun.
„Ég sé stundum fyrir mér piparkökukarl í formi. En maður þarf að taka plássið sem þarf. Piparkökukallinn er ekki endilega svarið.“
Þórdís hvatti þátttakendur ráðstefnunnar til að vera óhrædd við að hugsa á gagnrýninn hátt og vera óhrædd við að betrumbæta heiminn. Ungt fólk sé framtíðin.
„Besta dæmið um þessar mundir er hin sænska Greta Thunberg, sem vakið hefur fólk um allan heim um mikilvægi loftslagsmála. Afstaða hennar að ferðast ekki með flugvélum hefur mótað fólk,“ sagði Þórdís og hvatti þátttakendur til að láta til sín taka, ekki hlusta á úrtöluraddir og þora að taka áhættu:
„Það er mjög gott að spyrja, stundum ekki endilega gáfulega. Við þurfum ekki að hafa svörin heldur kunna að spyrja spurninganna. Ég hef verið rökföst, fylgt minni sannfæringu og verið ég sjálf. Ef það er eitthvað sem ég get ráðlagt ykkur er að grípa öll þau tækifæri sem gefast. Líka þau sem virðast of stór. Ef þið standið frammi fyrir því að hrödkkva eða stökkva, þá mæli ég með því að stökkva. Það skilar manni lengra,“ sagði Þórdís.
Ávarp ráðherra í heild sinni:
„Börn í dag eru fordekruð og ókurteis, bera ekki virðingu fyrir fullorðnum og þau hanga í samræðum hvort við annað í stað þess að fara út og hreyfa sig. Og svo heimta þau þjónustu í stað þess að hjálpa til á heimilinu sínu“.
Það kannast kannski einhverjir hér inni við þennan söng og taka það jafnvel til sín. Ég vil þó taka það fram að þetta eru ekki mín orð, og þetta er reyndar ekki heldur tilvitnun í manneskju sem er uppi á okkar tímum. Hér er nefnilega vitnað í gríska heimspekinginn Sókrates sem var uppi um það bil 400 árum fyrir Krist.
Ég dró þetta fram til að minna á að börn og unglingar hafi fengið að heyra sömu gagnrýnina og sömu skammirnar í gegnum allar aldir. Sama söng og heyrist enn í dag, um að unglingar nútímans hagi sér ekki almennilega, öfugt við það sem áður var.
Það gleður mig mjög að fá að vera með ykkur á þessum fallega morgni í Borgarnesi. Yfirskrift fundarins er ungt fólk og lýðræði og fundarefnið er „hvernig get ég verið besta útgáfan af sjálfum mér?“ Þetta er stór spurning og mikilvæg og mun örugglega skapa skemmtilega umræðu hér í dag.
Það er afar mikilvægt að ungt fólk eins og þið, takið virkan þátt lýðræðislegri umræðu og myndið ykkur skoðun á því sem er að gerast í samfélaginu. Þið eruð hópurinn sem munuð erfa landið og þið eruð fólkið sem mun leysa þær gátur sem foreldrar ykkar geta ekki svarað.
Við stjórnmálamenn þurfum að heyra ykkar rödd, ykkar spurningar og ykkar pælingar. Á sama hátt biðjum við ykkur að vera áhugasöm um nýja þekkingu og nýjar leiðir, hafa opinn huga og þróa með ykkur gagnrýna hugsun. Þið þurfið að bera virðingu hvert fyrir öðru ( og þeim sem reyndari eru) en á sama tíma vera óhrædd við að skoða ykkar eigin lausnir til að betrumbæta heiminn.
Það eru alltaf einhverjir sem telja að ungt fólk hafi ekki neitt til málanna að leggja. Við vitum hins vegar betur og það eru reyndar mörg dæmi um það hversu miklu unglingar geta komið til leiðar, með því að vera skýr í málflutningi og fylgin sér. Besta dæmið um þessar mundir er hin sænska Greta Thunberg, sem hefur vakið fólk um allan heim til umhugsunar um loftslagsmál og segja má að hún hafi náð meiri árangri en margir af þeim fulltrúum, embættismönnum og hagsmunaaðilum sem einnig eru að fjalla um þetta mikilvæga mál.
(Greta Thunberg ávarpaði ráðstefnu ungs fólks í Hörpu í gær, og talaði þá í gegnum Skype, þar sem hún reynir að komast hjá því að nota flugvélar. Bara sú afstaða hennar að ferðast ekki með flugvélum, hefur síðan haft áhrif á afstöðu ungs fólks um víða veröld).
Ég þekki það sjálf á eigin skinni að vera yngst fulltrúinn í hópi fólks. Ég er yngsti ráðherrann í núverandi ríkisstjórn og jafnframt yngsta konan til að gegna ráðherraembætti. Þá er ég yngsta konan til að gegna hlutverki varaformanns í flokknum mínum, Sjálfstæðisflokknum. Ég hef alveg fengið að kynnast þeim röddum sem telja að ungt fólk hafi ekki það sama til málanna að leggja, geti síður sett sig inn í flókin viðfangsefni og þurfi bara að bíða. Mitt ráð gagnvart slíkum úrtöluröddum er að vera ávallt rökföst og málefnaleg í málflutningi, fylgja minni sannfæringu og umfram allt, vera ég sjálf.
Þetta vil ég skilja eftir hjá ykkur: hlustið á magann ykkar, innsæi ykkar. Grípið tækifærin. Sækið þau og nýtið þau vel. Líka þegar maður verður pínulítið smeykur og þarf að fara út fyrir þægindarammann. Vitið til, maður verður háður því að leita út fyrir þægindarammann.
Verið þið sjálf. Það er lang, lang auðveldast en samt oft flókið. Að standa og falla með því. Athugið að fullorðnu fólki finnst oft erfitt að vera það sjálft. Finnst það þurfa að vera í hlutverki. En hver eru þessi hlutverk og af hverju á maður að fara í hlutverk?
Berið virðingu fyrir verkefnum ykkar og vandið ykkur. Ekki halda að aðrir viti alltaf betur - en ekki halda að þið vitið best heldur. Verið opin og hlustið, lærið, meðtakið og vaxið - stækkið.
Hafið sjálfstraust. Til að vera maður sjálfur þarf maður að hafa sjálfstraust. Takið pláss.
Að lokum- ég óska ykkur til hamingju með þessa ráðstefnu og ég hlakka til að heyra meira frá ykkur í náinni framtíð.