Minnum á umsóknir í Umhverfissjóð
Búið er að opna fyrir umsóknir í Umhverfissjóð UMFÍ. Sjóðurinn styrkir umhverfisverkefni félaga eða einstaklinga innan ungmennafélagshreyfingarinnar. Umsóknarfrestur er til 15. apríl ár hvert.
Á meðal verkefna sem hafa hlotið styrki í gegnum tíðina eru gerð skjólbeltis á íþróttasvæði Ungmennafélagsins Neista á Djúpavogi, fegrun SS-vallar Knattspyrnufélags Rangæinga á Hvolsvelli, kolefnisjöfnun Unglingalandsmóts UMFÍ og Landsmóts UMFÍ 50+ og margt fleira.
Áherslur í úthlutun
Í samræmi við reglugerð sjóðsins leggur sjóðsstjórn áherslu á að veita styrki til umhverfisverkefna sem:
• tengjast yngra fólki.
• stuðla að auknum tengslum við náttúru landsins.
• fela í sér nýjungar í umhverfisverndun og nýtingu.
Umsækjendur eru hvattir til þess að kynna sér vinnureglur og matskvarða sjóðsins. Umsókn þarf að hljóta að lágmarki 50 stig til þess að vera metin styrkhæf.
Lesa vinnureglur og matskvarða
Umsækjendur sem hljóta styrk þurfa að skila inn skýrslu á ákveðnu lokaskýrsluformi og senda til þjónustumiðstöðvar UMFÍ á netfangið umfi@umfi.is.
Umsóknarfrestur er 15. apríl ár hvert.
Tilkynnt er um styrkveitingar fyrir 15. maí sama ár. Skilyrði fyrir styrkjum er að styrkþegi sé félagi/félag í UMFÍ og verkefnið sé umhverfisverkefni.
Á myndinni hér að ofan má sjá Hrein Óskarsson, sviðsstjóra þjóðskóga og landa hjá Skógræktinni, ásamt þeim Hlyni Geir Hjartarsyni, framkvæmdastjóra Golfklúbbs Selfoss, og Birni B. Jónssyni, verkefnastjóra Skógræktarinnar og fyrrverandi formanni UMFÍ, þegar þeir gróðursettu plöntur á golfklúbbinum á Selfossi í tengslum við kolefnisjöfnun Unglingalandsmóts UMFÍ.