Mörg ungmenni vilja sæti í Ungmennaráði UMFÍ
Alls bárust tólf umsóknir víðsvegar af landinu um sæti í Ungmennaráði UMFÍ. Umsóknirnar eru nokkuð jafnar á milli kynja. Ungmennaráð UMFÍ á aldrinum 16-25 ára alls staðar að af landinu og er það skipað á sambandsþingum UMFÍ til tveggja ára í senn.
Frestur til að skila inn umsóknum rann út 22. september síðastliðinn.
Sambandsþing UMFÍ fer fram helgina 14.- 15.október. Í kjölfar þess mun stjórn UMFÍ funda um nefndir og tilkynna m.a. hver muni taka sæti í Ungmennaráði UMFÍ.
Það er frábært að ungt fólk hefur áhuga á því að starfa í ráðinu og gaman að sjá áhuga þeirra á félagsstörfum og lýðheilsu almennt.
Ráðið er umræðu- og samstarfsvettvangur ungmenna innan UMFÍ sem vill láta rödd sína og annarra ungmenna heyrast. Á meðal helstu verkefna Ungmennaráðs UMFÍ er ráðstefnan Ungt fólk og lýðræði, sem haldin er einu sinni á ári og umræðupartýum UMFÍ sem haldin eru tvisvar á ári.